140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel algerlega fráleitt að halda því fram að neysla muni aukast. Neyslan hefur einmitt minnkað við þau boð og bönn sem nú þegar hefur verið gripið til. Við teljum óásættanlegt að 700 ungmenni byrji að reykja á ári. Þess vegna viljum við taka fleiri skref.

Það er ýmislegt fleira í þessari tillögu sem felur í sér boð og bönn en ekki allt. Það að færa tóbaksvörur inn í apótekin felur ekki í sér nein sérstök boð og bönn. Það væri bara verið að færa söluna til þannig að hún yrði á færri stöðum og seld í gegnum heilbrigðistengda aðila.

Hv. þingmaður kom inn á mjög spennandi punkt sem hefur verið ræddur í tengslum við þetta mál. Það er siðfræðin. Á heilbrigðisstarfsmaður yfirleitt að skrifa upp á tóbaksseðil? Þetta mundi ekki heita lyfseðill heldur tóbaksseðill. Reyndar er verið að selja ýmis lyf í dag sem eru ekki æskileg en fólk þarf að nota vegna m.a. aukaverkana og fráhvarfseinkenna við ýmsu. Það er því þekkt fyrirbæri að ávísa lyfjum sem eru alls ekki æskileg og menn vildu heldur sleppa að ávísa. Samkvæmt þessari hugmyndafræði yrðu heilbrigðisstarfsmenn að gefa út svokallaðan tóbaksseðil þrátt fyrir að vita hvað þetta efni er hættulegt af því að þeir væru að gera það í þeim tilgangi að verja börn og ungmenni. Heilbrigðisstarfsmaður mundi vita að viðkomandi væri mjög háður þessu efni, hann yrði flokkaður með tóbaksfíkn, og mundi ávísa tóbaksseðli út af því.

Lyfjafræðingar ræddu þetta einmitt við okkur og læknar hafa reyndar líka rætt það og þeir virða þessi viðhorf. Sumir vilja helst ekki gera þetta. Hver vill ota tóbaki að fólki? Einhver verður að gera það ef fólk ætlar að reykja áfram og þá er betra að gera það með þessum hætti en einhverjum öðrum.