140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hið síðastnefnda þætti mér eiginlega verra að tengja saman fíkn í áfengi og fíkn í tóbak þannig að ef menn ætluðu að kaupa sér tóbak væru þeir leiddir innan um allt áfengið til að minna þá á að það gæti verið gott að taka það líka. Mér líst ekkert á þá hugmynd.

Talandi um bann þá er til hugtak sem heitir bannárin. Þá var áfengi bannað. Það byrjaði í Bandaríkjunum — ég þekki ekki söguna nákvæmlega en ég veit að margir mjög frægir glæpahringir í heiminum áttu sér uppruna á bannárunum í Bandaríkjunum. Hvað gerðist þegar áfengi var bannað bæði hér á landi og þar? Menn framleiddu það bara heima hjá sér og út um allt og seldu. Það fór allt undir yfirborðið. Menn reyndu að uppræta það og það gekk svona og svona. Ég minni á að vímuefni eru bönnuð. Þær tegundir sem eru seldar sem ég þekki ekki allar með nafni eru bannaðar en þeirra er samt neytt á Íslandi þannig að boð og bönn hafa ekki endilega góð áhrif, nema það sé mikill vilji hjá þjóðinni til að framfylgja þeim. Það er einmitt það sem gerðist með bílbeltin, menn skildu um hvað væri að ræða. Ég held að upplýsingar og forvarnir eins og hafa verið hafi minnkað notkun á tóbaki en ekki boðin og bönnin.