140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[16:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um reglubundnar árlegar heimsóknir fyrir eldri borgara í forvarnaskyni. Hér er tekið á mjög stóru vandamáli, kannski stærra en kom fram í ræðu hv. framsögumanns Sivjar Friðleifsdóttur. Við erum að ræða vandamál sem heitir einsemd aldraðra.

Margir aldraðir eiga mikinn frændgarð og stóra fjölskyldu sem heldur þétt utan um þá eins og þeir héldu áður utan um sínar fjölskyldur. En það er ekki alltaf og því miður eru dæmi um það, og allt of mörg, að fólk er mjög einmana í ellinni. Ég er ekki viss um að sú árátta eða hvað ég á að kalla það, kannski einstaklingshyggja, sem hefur komið fram á síðustu árum og felst meðal annars í því að menn skuli búa í sérbýli, einir, frú forseti, svo þeir geti verið einmana, einir í herbergi síðustu æviárin, sé endilega af hinu góða.

Hv. þingmaður nefndi nokkur efnahagsleg rök og það er alveg ágætt inn í umræðuna. Mér finnst það eiginlega skipta minna máli, merkilegt nokk þegar menn heyra mig tala, og ég mundi frekar líta á félagslegu þættina eða bara þessa persónulegu þætti, sálfræðilegu þætti fólksins sem er orðið gamalt.

Hv. þingmaður sagði að það væri gott að fólkið væri heima. Ég er ekki viss um að svo sé alltaf. Ég hef kynnst fólki sem blómstraði þegar það var komið inn á elliheimili innan um allan félagsskapinn vegna þess að maður er manns gaman, eins og segir í Hávamálum. Það er staðreynd sem á enn rétt á sér. Sú einstaklingshyggja sem kemur fram í því að hólfa allt saman niður, börnin hér og gamla fólkið þar og helst í sérbýli þannig að menn séu alveg einir er nefnilega ekki endilega góð. Þetta er ekkert voðalega einfalt.

Það sem mér finnst líka slæmt við þessa þingsályktunartillögu sem væntanlega má þá breyta, ég er í þeirri hv. nefnd sem málið fer til, er að það er opinber starfsmaður sem kemur í heimsókn og hringir væntanlega á undan: Nú kemur hið opinbera í heimsókn til þín. Við, hið opinbera, höfum hirt af þér skatta alla tíð og nú ætlum við að líta við hjá þér og sjá til þess að allt sé í lagi hjá þér.

Það er ekki voðalega gott. Það væri miklu betra ef menn reyndu að blanda saman, ég hef stundum rætt um að það yrði komið á reglulegum samkundum milli barnaheimila og elliheimila til að reyna að brjóta þennan múr einsemdar sem er uppi. Ég heyrði af því í Þýskalandi að einhver gamall maður sagðist óska eftir barnabörnum og auglýsti: Hér er einn sem langar til að vera afi. Hann fékk víst fullt af tilboðum um að verða afi.

Þetta er miklu meira spurningin um sálfræði og félagslega stöðu fólks en efnahagslega. Málefnið er samt gott og ég held að það sé brýnt að koma einhverju slíku á vegna þess að þjóðfélagið okkar gengur allt út á einhverja hólfun. Börnin eiga að vera þarna, foreldrarnir eiga að vera að vinna hvort í sínu lagi eða í námi, svo fara menn á elliheimili og þetta er allt einhvern veginn hólfað niður og kynslóðirnar skildar að. Það er hið neikvæða í þessu. Þó að ég viti að mjög margir aldraðir fái heimsókn frá börnunum sínum og séu mjög vel staddir félagslega eru því miður til mjög sorgleg dæmi um að menn séu mjög einmana í ellinni.