140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um norræna hollustumerkið Skráargatið. Flutningsmenn að þessu máli eru fulltrúar allra flokka á Alþingi. Þeir eru eftirfarandi, virðulegur forseti, sú er hér stendur fyrir Framsóknarflokkinn, hv. þingmenn Þuríður Backman frá Vinstri grænum, Ragnheiður Ríkharðsdóttir Sjálfstæðisflokki, Margrét Tryggvadóttir Hreyfingunni og Mörður Árnason Samfylkingunni. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir því að unnt verði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur sem framleiddar eru hérlendis.“

Rök eru færð rök fyrir málinu í greinargerðinni en ákveðin forsaga er á bak við það. Það var lagt fram á síðasta þingi og mælt var fyrir því, það fór til nefndar og fékk umsagnir. Umsagnirnar voru allar frekar jákvæðar, sumar mjög jákvæðar, þannig að ég tel að ákveðin samstaða sé að myndast um að klára þetta mál.

Svíar tóku upp hollustumerkið Skráargatið árið 1989 og þetta er því ekki glænýtt merki. Markmiðið var að auðvelda fólki að velja holl matvæli þegar það væri að versla í búðum. Merkið reyndist svo vel að fyrir nokkrum árum ákváðu Danir og Norðmenn einnig að taka upp merkið. Finnar eru með annað merki. Þeir eru að íhuga upptöku Skráargatsins til að ná ákveðinni samræmingu við eigið hollustumerki, svokallað Hjartamerki.

Til að fá Skráargatið á vöru þarf matvara að uppfylla ákveða kröfu um magn salts, sykurs, fitu, mettaðrar fitu og trefja. Einungis hollustu vörurnar í hverjum flokki geta fengið merkið. Varan þarf með öðrum orðum að standast þau hollustuviðmið sem sett eru fyrir hvern vöruflokk og þá gildir ákveðin prósenta salts, grömm af salti í hverjum 100 grömmum, fitu o.s.frv. Þetta eru allt saman töluleg, mælanleg markmið. Sælgæti, gos eða aðrar matvörur sem teljast óhollar geta ekki fengið Skráargatið. Markmiðið með merkinu er að gefa neytendum færi á að velja hollan mat án mikillar fyrirhafnar þannig að þeir sem eru að versla í búðum geta séð mjög fljótt hvaða vörur eru með Skráargatinu og gripið þær með sér. Þetta er auðvitað ansi snjallt.

Merkið er auðþekkjanlegt og reynsla frænda okkar annars staðar á Norðurlöndunum sýnir að neytendur þekkja merkið og treysta því. Frá árinu 2008, þegar notkun þess hófst í Danmörku og Noregi, er Skráargatið nánast orðið samnorrænt hollustumerki. Ég vil taka fram að þetta er fyrsta hollustumerkið sem stjórnvöld fleiri en eins ríkis standa að. Það er nýmæli. Það er mjög snjöll hugmynd að mörg lönd taki sig saman um þetta kerfi.

Neytendasamtökin á Íslandi hafa frá 2008 ítrekað skorað á stjórnvöld að taka merkið upp en auk þeirra hafa m.a. Lýðheilsustöð, manneldisráð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hvatt til að það verði tekið upp. Í skýrslu faghóps hæstv. forsætisráðherra um að efla lýðheilsu frá 2005 er mælt með upptöku slíks merkis og bent á sérstaklega góða reynslu Svía af Skráargatinu.

Varðandi önnur rök fyrir því að taka upp merkið benda flutningsmenn á að Norðurlandabúar standa frammi fyrir svipuðum áskorunum hvað varðar lífsstíl og mataræði og mörg önnur ríki. Á Norðurlöndunum er talið mjög brýnt að vinna gegn offitu og lífsstíl og velmegunarsjúkdómum sem tengjast offitu. Til að leggja áherslu á þetta vilja Norðurlöndin, Ísland þar með, bæta mataræði og auka hreyfingu. Það að bæta mataræði felur m.a. í sér að auðvelda fólki að velja hollar matvörur. Það er hægt að slengja því fram að Íslendingar eru nú því miður fjórða feitasta þjóð Evrópu á eftir Bretum, Írum og Möltubúum. Það er því eftir nokkru að slægjast hjá okkur að kaupa hollari matvörur.

Neytendasamtökin sendu í ársbyrjun fjórðu áskorun sína til yfirvalda og telja brýnt að íslenskir framleiðendur noti merkið á vörurnar sínar. Skráargatið er nú þegar á örfáum vörum á Íslandi sem eru fluttar til landsins frá Skandinavíu en íslenskir neytendur þekkja merkið því miður ekki og hafa þess vegna kannski ekki nógu mikið gagn af því nú. Þetta skýtur svolítið skökku við af því að við erum alltaf að hvetja til þess að fólk borði hollari mat og lifi á heilbrigðari hátt. Við teljum því að taka eigi upp þetta merki hið fyrsta. Upptaka merkisins hér á landi ætti að vera mjög einföld í framkvæmd. Líklegast mundi Matvælastofnun veita leyfi til notkunar merkisins. Merkið yrði valkvætt þannig að framleiðendur mundu geta sótt um að fá það á matvöru sína og ef hún uppfyllir skilyrðin fengi framleiðandinn leyfi til að nota merkið sér að kostnaðarlausu.

Skráargatið er skráð vörumerki í Svíþjóð og eign matvælastofnunarinnar þar í landi, Livsmedelsverket, en hún hefur gefið Noregi og Danmörku heimild til að nota merkið í löndunum þremur. Alls staðar eru sömu einkunnarorð notuð, „Auðvelt/létt að velja hollustu/hollara“.

Ég vil taka fram að ákveðinn þrýstingur er frá markaðnum hér um að fá að nota merkið, sem er mjög jákvætt. Ég vil nefna að Myllan bíður t.d. eftir að merkið verði tekið í gagnið á Íslandi og ætlar að setja Skráargatið á ákveðnar brauðvörur sem fyrirtækið framleiðir. Mér finnst gríðarlega jákvætt að finna fyrir þeim þrýstingi. Mér skilst að nú þegar sé búið að merkja morgunkorn úr íslensku byggi með Skráargatinu. Ég átta mig reyndar ekki alveg á því hvernig það fór fram, hvort sótt var um það til Svíþjóðar eða hvort menn hafi bara drifið í þessu án þess að kerfið væri komið upp. Ég veit ekki hver hefur vottað það en ég hef séð slíka pakka og Skráargatið er á þeim. Væntanlega hefur verið leitað til Svíþjóðar með að fá Skráargatið á þá vöru.

Varðandi þá sem hafa hugsanlega efasemdir um þetta mál, þá átta ég mig ekki alveg á mjólkuriðnaðinum. Ég vil nefna að mjólkurvörur eru margar hverjar því miður of sykraðar eða of feitar. Ég get ekki fullyrt það en mér finnst líklegt að einungis þrjár mjólkurvörur á Íslandi mundu uppfylla kröfur Skráargatsins í dag. Það er undanrenna og að ég held fjörmjólk og hreint skyr. Hugsanlega uppfylla einhverjar fleiri mjólkurvörur skilyrðin en mjólkurframleiðendur, eða þeir sem framleiða úr mjólkurvörum, eru einn stærsti sykurinnflytjandinn á Íslandi. Það er svolítið merkilegt. Við búum við mjög sykraða mjólkurvöru. Ég tel að ef Skráargatið verður tekið upp — og það verður tekið upp, það er bara spurning um hvenær, að mínu mati — þá muni mjólkuriðnaðurinn aðlagast þessu og taka væntanlega út talsvert af sykri úr völdum vörutegundum til að fá Skráargatið á viðkomandi vöru, því að mínu mati mundi hún seljast betur ef menn væru með vottun upp á að ekki væri hátt hlutfall sykurs í vörunni. Væntanlega yrði fita líka tekin úr einhverri vöru. Hins vegar vil ég taka það fram að menn þurfa líka fitu, við eigum ekki að taka alla fitu úr vörunni, alls ekki. En neytendur eiga að hafa val og fá upplýsingar um innihald vöru og Skráargatið er auðvelt, það er auðvelt að sjá hvaða vara er merkt með Skráargatinu. Þeir sem vilja mjög holla vöru að þessu leyti geta valið vöruna hratt og örugglega ef hún er merkt með Skráargatinu og gripið með sér.

Ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að geta farið tiltölulega hratt yfir þetta mál og komið þessu kerfi upp. Líklega væri Matvælastofnun besti aðilinn til að sjá um utanumhald og eftirlit með því að réttar vörur væru merktar Skráargatinu og að þeir sem standast skoðun fái leyfi til að nota merkið á sína vöru.