140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[17:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin aftur fram. Flutningsmaður hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á að málið hefði verið flutt í fyrra eða á síðasta þingi og hefði gjarnan mátt hafa framgang þá.

Ég hef sjálfur tekið eftir þessu merki á matvörum eins og vafalítið margir fleiri og það er klárlega til mikils hægðarauka fyrir neytendur. Ég velti fyrir mér hvort það sé að sumu leyti kannski of einfalt en það þarf hins vegar alls ekki að vera og kannski er eitthvað sem virðist of einfalt skynsamlegasta lausnin í þeim hraða og í því neyslusamfélagi sem við búum í.

Flutningsmaður kom aðeins inn á notkun merkisins á pakka eða ferskvöru eins og t.d. mjólkurvörur og þess háttar. Ég velti fyrir mér hvort hægt sé að víkka það út að einhverju leyti þannig að það nái til annarrar ferskvöru, t.d. að merkja ferskvöru í hillum með sambærilegu merki. Kannski gætum við tekið upp einhverja íslenska leið í því þannig að það sé ekki bara pakkavaran sem er merkt eins og nú er vegna þess að þótt það sé ekki einhlítt er pakkavara að jafnaði unnin matvara eða unnin matvæli að einhverju leyti. Ég óttast svolítið að einhverjir gætu mistúlkað merkið þannig að slík matvæli, þ.e. pakkavara og þess háttar, væru að einhverju leyti hollari en ferskvaran. Þess vegna held ég að það væri mjög gott að á ávöxtum og grænmeti í kjörbúðinni væri líka Skráargatsmerki vegna þess að það væri holl matvara o.s.frv. Ég held að það væri svolítið skemmtilegt íslenskt „tvist“, ef ég má sletta, herra forseti, á þessum merkingum.

Ég er líka mjög mikill talsmaður þess að við förum út í miklu víðtækari merkingar á matvælum sem seld eru og höndlað er með á Íslandi. Í mörgum löndum, bæði austan hafs og vestan, eru mjög góð og tiltölulega neytendavæn merkingakerfi sem gera neytendum tiltölulega auðvelt að átta sig á því hvað eru „góðar“ og „slæmar“ matvörur og þess vegna ættum við að ganga lengra. Ég held að þessi leið sé mjög gott fyrsta skref.

Mér leikur svolítil forvitni á því, herra forseti, að vita hvort flutningsmanni er kunnugt um hvort gerðar hafi verið einhverjar kannanir á áhrif þessara merkinga á verðlagningu viðkomandi matvæla. Ég held að það skipti máli að við séum svolítið vakandi fyrir því eða getum gert okkur einhverja hugmynd um hvaða áhrif merkingin hefur. Það kemur ekki fram í tillögunni sjálfri hverjir eiga að bera kostnað af uppsetningu kerfisins. Það kemur að vísu fram í greinargerðinni að það eigi að vera á hendi Matvælastofnunar og af því hlýst væntanlega einhver kostnaður en mér þætti vænt um ef flutningsmaður kæmi aðeins meira inn á þá þætti. Ég er alveg viss um að neytendur eru almennt séð tilbúnir til að borga fyrir upplýsingar sem varða heilsu þeirra eins og þessar en ég held að svo löggjafinn taki ákvarðanir um að fara út í svona verkefni sé skynsamlegt að hann sé a.m.k. meðvitaður um í hverju sá kostnaður liggur.