140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

hitaeiningamerkingar á skyndibita.

24. mál
[17:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég er hrifin af þessu máli og tel það mjög brýnt og vildi koma aðeins upp og kvitta fyrir það. Þetta er neytendamál. Við erum að tala um rétt neytanda til að fá upplýsingar um hvað hann lætur ofan í sig. En ég held að það sé ekki bara gott fyrir neytendur, ég held það sé líka hagur staðanna og að skyndibitastaðir geti staðið miklu betur að málum. Oft þarf ekki að gera miklar breytingar á réttum til þess að þeir sé miklu hollari og oft bragðbetri líka. Svo er það auðvitað hagur staðanna að fastakúnnarnir þeirra munu lifa lengur ef þeir borða hollari mat og eru þá væntanlega lengur í viðskiptum.

Mig langar að beina því til þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar að skoða hvort rétt sé að vera með nánari upplýsingar en bara hitaeiningamagnið. Það eru allt staðlaðir réttir sem um er að ræða. Það er ánægjulegt að heyra að sumir staðir séu farnir í þessa vinnu. Ef á annað borð ráðist er í að kryfja efnainnihaldið í réttunum ætti að vera lítið mál að veita líka upplýsingar um fituinnihald og þá hvernig fitu og hvernig kolvetni, prótein, trefja- og saltmagn, því að fólk er auðvitað misjafnt. Sumir hafa ákveðna sjúkdóma eða einhverja kvilla eða eru viðkvæmir fyrir ákveðnum efnum og þurfa að passa mataræðið. Það er mjög breytilegt frá manni til manns hvað fólk þarf að passa. Sumir þurfa kannski að huga að saltinnihaldi, aðrir eru sykursjúkir og þurfa að huga að kolvetnisinntöku og enn aðrir hafa bara áhuga á því hvernig maturinn er samsettur. Ég beini þessu til nefndarinnar, en annars styð ég þetta mál. Það er mjög gott.