140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

hitaeiningamerkingar á skyndibita.

24. mál
[17:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég held að hér sé klárlega um mjög gott mál að ræða og löngu tímabært að stuggað sé við þessari grein matvælaframleiðslu hvað varðar að láta þá neytendur sem sækja veitingastaði vita hvað þeir eru í raun að kaupa.

Ég held að sú mildilega leið sem flutningsmenn vilja fara í þessu máli geti verið ágæt, en ég tek heils hugar undir að dugi sú mildi ekki til þess að fá framleiðendur til að setja merkingar á vörur sínar eigi að setja um það reglur eða breyta lögum ef þarf. Það er rétt sem fram kom hjá hv. flutningsmanni að það er aðeins farið að bera á því að matsölustaðir á Íslandi séu farnir að merkja vörur sínar með hitaeiningafjölda og er það vel. Það er mjög víða erlendis og maður sér það jafnvel ekki aðeins á stöðum sem eru hluti af keðjum, heldur líka á almennum veitingastöðum sem vilja upplýsa neytendur sína og það er mjög gott mál. Sumar veitingahúsakeðjur hafa gengið svo langt að nota sérstakar merkingar á vörur sem eru annaðhvort mjög fitusnauðar eða kaloríusnauðar og setja þá gjarnan einhvers konar hjartamerki eða þess háttar á merkinguna sem segir að þetta sé fæða sem sé heppileg fyrir þá sem eru að hugsa um hjartað eða eru hjartveikir.

Af því við vorum að tala um Skráargatið áðan er hin sjónræna nálgun á vörukaupum mikilvæg; það er ákveðið merki á vörunni og ég veit að mér er óhætt að kaupa hana. Við þekkjum t.d. Svaninn og vonandi fljótlega Skráargatið. Það er hægt að nota alls konar hugmyndafræði af því tagi.

Ég held þess vegna að þetta sé gott fyrsta skref. Ég tek undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur hvað það varðar að það væri allt í lagi að gengið væri lengra í þessum efnum en bara varðandi hitaeiningarnar. Það eru mörg varhugaverð efni, ég ætla ekki að segja hættuleg, sem eru í þeim matvælum sem við látum ofan í okkur, sérstaklega fyrir einstaklinga sem eru með tiltekna sjúkdóma. Það getur stundum verið mjög mikilvægt og á köflum lífsnauðsynlegt fyrir fólk að vita um alls konar snefilefni sem kunna að vera í matvælum. Margir veitingastaðir á Íslandi til að mynda eru farnir að geta þess sérstaklega ef tiltekin snefilefni eru í matvælum sem þeir framleiða, eins og t.d. hnetur eða hnetuolíur sem valdið geta bráðaofnæmi og fleira.

Ég held að þessi tillaga sé bara af hinu góða og fagna framkomu hennar. Ég vona að málið nái fram að ganga á þessu þingi.