140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[10:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Um það þarf ekki að deila að lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykki í íslensku atvinnulífi. Það er mjög mikilvægt á tímum efnahagslegra örðugleika að litið sé sérstaklega til þeirra og þau treyst og styrkt eins og kostur er svo þau hafi tækifæri til að ráða til sín fólk, vaxa og dafna og veita okkur þá mikilvægu viðspyrnu sem við þurfum á að halda í efnahagslífinu.

Mig langar að tala við hæstv. viðskiptaráðherra aðeins um þá stöðu sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru í og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki, og geti tekið undir það með okkur sjálfstæðismönnum í þeim tillögum sem við höfum lagt fram í efnahagsmálum, að líta þurfi sérstaklega til þeirra og til þess sem hægt væri að gera fyrir þau. Beina brautin svokallaða hefur gengið allt of hægt. Úrvinnsla skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur verið allt of hæg og við þurfum augljóslega að gefa þar sérstaklega í og ég vil segja fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna að við höfum ávallt verið reiðubúin til að gera það sem gera þarf til að hjálpa til í slíkum málum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki undir það með mér að setja þurfi sérstakan þrýsting núna á fjármálastofnanir hvað varðar skuldaúrlausnir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í tillögum okkar er lagt til að úrvinnslu þessara mála verði lokið á fyrri hluta næsta árs, við tiltökum reyndar í okkar tillögum 31. mars 2012 til að líta á það sem einhvers konar endapunkt. Við sjáum þá fram á það hvernig málinu lýkur. Mig langar að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann sé sammála mér í því að það sé takmark sem við eigum að setja okkur og hvað hann telji að gera þurfi til að leysa úr þeim mikla vanda sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru í þegar litið er til þess skuldavanda sem við þeim blasir.