140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

reglur um eignarhald í bönkum.

[10:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er að vinna fyrir okkur í úrvinnslu eftir bankahrunið og hefur í nógu að snúast. Það er mikilvægt að við lærum af þeim mistökum sem gerð voru. Íslensku viðskiptabankarnir urðu sannanlega of stórir, en eigendur bankanna urðu líka of stórir eigendur. Þeir eignuðust of stóra hluti í viðskiptabönkunum og gátu farið með þá næstum að vild sinni. Það er þess vegna grundvallaratriði í því að læra af bankahruninu að þegar við endurreisum fjármálakerfið verði settar lagaskorður við því hversu stóran hlut menn megi eiga í bönkunum eins og gert er í Noregi, 10%, til að það gerist aldrei aftur að örfáir aðilar geti átt alla stóru viðskiptabankana og farið með þá að vild.

Ég inni hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eftir þeim sjónarmiðum sem hann hefur í þessu efni, en vil ekki síst inna hann eftir því hvaða annmarkar geti verið á því að setja slíkar skorður við eignarhaldi, bæði vegna þess að hann hefur góða yfirsýn yfir málaflokkinn en ekki síst vegna þess að hann þekkir Evrópuréttinn kannski öðrum betur í þingsalnum. Kæmi eitthvað í hinu evrópska regluverki í veg fyrir að við settum skorður við því í nýjum viðskiptabönkum á Íslandi hvað menn mættu eiga stóran hlut í þeim?