140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

reglur um eignarhald í bönkum.

[10:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að læra af biturri reynslu í þessu efni. Við eigum vonandi aldrei aftur eftir að búa til þannig umgjörð að stærsti banki þjóðarinnar, a.m.k. sá mikilvægasti, sé að 42% í eigu feðga og kallist samt almenningshlutafélag. Við höfum nú þegar sett yfirtökuskyldu í 30% af öllum félögum sem eru skráð á markaði og það er mjög mikilvægt að við búum í haginn fyrir fjölbreytt eignarhald.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, hluti af vandamálinu í aðdraganda hrunsins var aðstöðusköpunin. Það er þó líka mikilvægt að hafa í huga að það var ekkert nýtt í íslenskri sögu. Það var vissulega nýtt að menn eignuðust banka og væru sjálfir stærstu viðskiptavinir bankanna og lánuðu sjálfum sér eða skiptust á um að lána sjálfum sér milli banka sinna, en það hefur þvert á móti verið ráðandi í íslensku viðskiptalífi í áratugi að stærstu skuldunautar bankakerfisins ráði yfir því í gegnum pólitíska stjórn á bönkum. Allir þekkja söguna frá 1937 þegar stærstu skuldarar Landsbankans sátu í bankaráðinu, fulltrúar Kveldúlfs, SS og Sambandsins. Allir þekkja þá sögu hvernig frátekinn var bankastjórastóll fyrir Sambandið allt fram á síðustu ár. Það eina sem var nýtt í kjölfar einkavæðingar bankanna var að menn skyldu að einhverju leyti hætta sínum eigin peningum í því að skapa sér aðstöðu í stærstu bönkum þjóðarinnar. Við verðum að passa að endurvekja aldrei aftur kerfi sem skapar möguleikana á því að menn grípi eins og herfang almenningseigur, eins og ríkisbankarnir voru, til að skapa sér aðstöðu, skammta sér forréttindaaðstöðu eins og gert var um áratugaskeið.

Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að hafa skýra stefnu um það með hvaða hætti tryggð (Forseti hringir.) sé lýðræðisleg aðkoma að eignarhaldi og að með sama hætti og við höfum nú sett í lög séu skýrar og (Forseti hringir.) skynsamlegar yfirtökureglur við lýði og þeim framfylgt.