140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

lánsveð og 110%-leiðin.

[10:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. 110%-leiðin hefur sína galla en hún er framkvæmanleg vegna þess að hún felur í sér að afskrifaðar eru kröfur umfram verðmæti eigna. Hún er jafngölluð leið og hefur flesta sömu galla og til dæmis hugmyndirnar í lyklafrumvarpinu, það að skila lyklum, þó að sú leið hafi reyndar enn fleiri galla. [Kliður í þingsal.]

Vandinn við framkvæmd 110%-leiðarinnar er sá að þegar hún var samþykkt í samningum milli fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og stjórnvalda var ljóst að menn gátu tekið þátt í þessu samkomulagi á ólíkum forsendum sem aðilar. Það er alveg ljóst að lífeyrissjóðir töldu sig ekki geta farið lengra en ýtrustu mörk voru sett fyrir í þessu samkomulagi og töldu sig ekki hafa til þess stjórnarskrárheimildir.

Það er líka ljóst að af hálfu samkeppnisyfirvalda var ekki vilji til þess að samþykkja eina úrlausn fyrir allar fjármálastofnanir, heldur yrðu þær að hafa sveigjanleika til að mæta viðskiptavinum sínum. Viðskiptavinir þeirra höfðu fengið ólík kjör í upphafi.

Ég held að það sem mestu skipti núna sé að horfa jákvætt á þá gagnrýni á 110%-leiðina sem fram hefur komið frá einmitt þeim hópum sem fóru hóflega í skuldsetningu en hafa ekki fengið úrlausn mála sinna vegna þess að þeir eru undir mörkunum, frá því unga fólki sem er með lánsveð og hefur ekki fengið úrlausn, og frekar en að auka enn á ósanngirnina gagnvart þessum hópum held ég að við eigum að reyna að finna leiðir til að finna skynsamlegar lausnir á þeim vanda sem blasir við. Það er verkefnið sem við eigum fyrst og fremst að horfa á.