140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

St. Jósefsspítali.

[10:53]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst um það hvort það hafi náðst hagkvæmni með breytingunum á St. Jósefsspítala held ég að Landspítalinn mundi aldrei fara út í þetta öðruvísi. Það hefur sýnt sig, gagnstætt því sem menn hafa haldið fram og við munum sjálfsagt koma betur að á eftir, að mikið af þeim niðurskurði eða þeim hagræðingar- og aðlögunarkröfum sem við höfum gert hefur skilað sér beint í aukinni hagræðingu, auknum sparnaði, aukinni hagkvæmni og ótrúlega lítilli breytingu á þjónustu hingað til. Aftur á móti erum við kannski komin nálægt því að nú fari að skerðast þjónusta að einhverju leyti.

Það er hárrétt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu að markmiðið sem við settum þegar Landspítalinn yfirtók rekstur St. Jósefsspítala var að viðhalda legudeild og raunar til viðbótar rannsóknarhlutanum á St. Jósefsspítala. Það var einlægur ásetningur að hafa það þannig. Það eru eldri tillögur um að loka St. Jósefsspítala, þær komu fram fyrst 2005 en þá átti að byggja þar upp öldrunarþjónustu og miðstöð fyrir svæðið varðandi öldrunarmál. Þetta eru ekki ný áform en þarna komu þau til framkvæmda. Ég sagði aftur á móti þegar við þurftum að taka síðasta niðurskurðarskrefið árið 2012 að það væri útilokað að stíga það skref öðruvísi en að Landspítalinn yrði með. Þá var sett 1,5% á Landspítalann sem eru 630 milljónir. Þeir á Landspítalanum höfðu að öðru leyti fyrst og fremst leiðrétt fyrir því sem hafði verið umfram fjárlög. Þegar það kom til kom Landspítalinn með þessa tillögu og ég sagði strax sem ráðherra: Ég get ekki bæði haldið og sleppt, gert kröfu um sparnað og neitað mönnum um að gera það sem þeir telja skynsamlegast út frá faglegum og hagkvæmnisrökum.

Þannig kemur þetta til og þar með sveik ég loforð mitt sem er hárrétt hjá fyrirspyrjanda, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.