140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning í rekstri bænda.

[10:58]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Í þessum fyrirspurnatíma hefur mikið verið rætt um skýrslu eftirlitsnefndar til efnahags- og viðskiptaráðherra. Í henni er fjallað sérstaklega um bændur í þó nokkuð stórum kafla. Meginniðurstaða skýrslunnar varðandi bændur sýnir að hægt gengur í fjárhagslegri endurskipulagningu hjá þeim. Jafnframt bendir eftirlitsnefndin á að verðmat á eignum bænda sé í fullkomnu ósamræmi við meðferð eigna annarra fyrirtækja.

Þeir tveir meginþættir sem eiga að liggja til grundvallar endurskipulagningar á skuldum bænda eru annars vegar greiðslugeta búrekstrarins og hins vegar virði eigna búsins. Í stað þess að meta virðið á grundvelli þeirra tekna sem eignirnar geta skapað eru bankarnir enn að þrjóskast við að meta virðið á grundvelli óraunhæfra hugmynda um verð, á grundvelli verðþróunar jarða sem var hér á árunum fyrir hrun. Glögglega má sjá veikleikann í þessari aðferðafræði því að verð allra fasteigna í landinu hefur fallið mjög mikið eftir hrun og markaður fyrir jarðir er hins vegar mun grynnri og fáar jarðir skipta um hendur.

Tilfellið er að hið gallaða mat bankanna á virði jarða er langtum hærra en það sem búskapurinn réttlætir og getur staðið undir. Nauðsynlegt er því að taka aðferðafræðina við verðmat jarða til gagngerrar endurskoðunar. Afleiðingar þessa ranga verðmats eru vandlega raktar í skýrslu eftirlitsnefndarinnar og bændur sjá því miður lítinn hag í samningum við fjármálastofnanir. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Finnst honum ekki hægt hafa gengið? Það eru einungis 35 kláraði samningar er varða bændur af samtals 2.657 bændum sem eru í viðskiptum samkvæmt skýrslunni meðan skorið er niður um 88 milljarða hjá verslun og þjónustu. Og finnst hæstv. ráðherra ekki (Forseti hringir.) að kerfislægt ofmat á jörðum sé eitthvað sem þurfi að taka á?