140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að hefja þessa umræðu um niðurskurð í heilbrigðis- og velferðarmálum. Ég fellst á að það er nauðsyn að skera niður og það er líka nauðsyn að auka tekjur ríkissjóðs, en mér finnst stefna ríkisstjórnarinnar röng. Hún hefur ekki hugað nægilega vel að því að skapa atvinnu. Það er mjög slæmt að skera niður og segja upp fólki, sem er nauðsynlegt þegar menn ætla að skera niður, vegna þess að þá fer fólk af launaskrá hjá ríkinu yfir á launaskrá hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er ekki eins mikill sparnaður og menn halda. Það þarf að skapa atvinnu fyrst.

Það vekur athygli í þessu máli að ríkisstarfsmenn kynna tillögurnar. Mér finnst að ráðherrar sem ákveða niðurskurðinn eigi að hafa manndóm og hugrekki til að kynna niðurstöðurnar fyrir fjölmiðlum og annars staðar en ekki senda embættismenn til þess.

Nú á að fara að loka líknardeild hjá Landakoti. Það á að loka deildum hér og þar og forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss segir að nú komi að því að skerða þjónustuna. Það á að fara að skerða velferðarkerfið. Og það er dálítið undarlegt að velferðarstjórnin og jafnréttisstjórnin skuli standa í því að skerða velferðarkerfið, auk þess sem niðurskurðurinn lendir aðallega á konum. Um 80–85% starfanna eru störf kvenna. Þetta er kannski kynjuð hagstjórn, það má vel vera að það sé kynjuð hagstjórn að segja aðallega upp konum. Svo er þetta öndvert við jafnrétti, það eru meinleg örlög þessarar ríkisstjórnar sem þykist vera velferðarstjórn og jafnréttisstjórn að hún skuli lenda í því að skerða jafnréttið, auka misréttið og vinna eiginlega gegn því sem hún ætlar að gera vegna þess að hagstjórnin sjálf er röng. Það á ekki að skatta sig út úr hagstjórninni, menn eiga að (Forseti hringir.) stækka kökuna.