140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:23]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Enn á ný liggur fyrir þinginu að samþykkja kreppudýpkandi fjárlagafrumvarp, frumvarp sem vegur að velferðinni og kvennastörfum í landinu. Umfang velferðarkerfisins er í dag það sama og 2003 og enn á að skera niður. Á sama tíma er reist skjaldborg um fjármagnseigendur. Heimilin í landinu björguðu þjóðinni frá enn frekari niðurskurði á næsta ári með því að taka út séreignarsparnaðinn sinn og fara í mál við bankana vegna gengistryggðra lána.

Björgunaraðgerðir fólksins unnu gegn kreppudýpkandi fjárlögum og tryggðu hagvöxt á þessu ári. Nú er komið að því að skera niður útgjöld til heilbrigðisþjónustunnar, skólanna, löggæslunnar og almannatryggingakerfisins. Það er niðurskurður sem mun færa okkur fjær norræna velferðarkerfinu þvert á loforð hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar.

Niðurskurðurinn á næsta ári fer allur í að fjármagna vaxtagreiðslur en ríkissjóður neyddist til að fjármagna hallarekstur með allt of háum vöxtum vegna rangrar efnahagsstefnu á Íslandi.

Frú forseti. Stjórnarmeirihlutinn hefur áttað sig á að leiftursókn gegn lífskjörum læknar engin mein og ætlar að hægja örlítið á niðurskurðinum, en það dugar ekki til. Nú getur stjórnarmeirihlutinn sýnt að hann meinti eitthvað með loforðinu um norrænt velferðarkerfi og horfið frá niðurskurðaráætlun AGS. Í stað niðurskurðar sem bitnar mest á þeim sem verst eru settir í þessu samfélagi getur stjórnarmeirihlutinn skattlagt óverðskuldaðan gengishagnað útflutningsfyrirtækja.

Frú forseti. Stöndum vörð um fólkið í landinu.