140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisþjónustan hrundi ekki. Það eru orð að sönnu og vert að geta þess að á árinu 2007 kom út skýrsla hjá OECD þar sem sagt var að heilbrigðiskerfið okkar væri gott, það væri lofsvert og að aðrir ættu að taka sér það til fyrirmyndar. Þess vegna spyr maður: Af hverju er ráðist í grundvallarbreytingar á kerfinu án umræðu, án rökstuðnings og í gegnum fjárlögin?

Ríkisstjórnin gaf út rit sem ber heitið Ríkisbúskapurinn 2012–2015. Þar er fullyrt að hlífa eigi velferðarþjónustunni, menntamálunum og löggæslunni. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að um þessa málaflokka stendur styrinn, þar er stríðið og þar er mesta óánægjan. En hæstv. heilbrigðisráðherra segir að það hafi verið aukið til málaflokksins velferðarmál og ég vek athygli á orðinu velferðarmál (Gripið fram í: Heilbrigðismál …) vegna þess að ef við tökum velferðarmál ein og sér kemur í ljós að það er vegna þess að menn hafa sett meiri pening í aukið atvinnuleysi, meiri pening í Atvinnuleysistryggingasjóð, og ég er ekki sannfærður um að það sé nokkuð sem ríkisstjórnin ætti að stæra sig sérstaklega af.

Síðan kom fram önnur fullyrðing, að það hefði orðið tekjuaukning hjá hinum lægstlaunuðu. Það er ekki rétt, auðvitað hafa þeir verið skornir minna en aðrir en það hefur ekki átt sér stað tekjuaukning. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur í undanförnum fjárlagafrumvörpum og þeirri tillögu sem þeir hafa lagt þar fram sýnt að hægt var að skera niður í heilbrigðismálum án þess að rústa kerfinu, (Forseti hringir.) án þess að skapa þá óánægju sem nú ríkir um málaflokkinn.