140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisútgjöld jukust mikið á þenslutímanum fyrir hrun og því var eitthvert fitulag í ríkisrekstrinum þó að því væri mjög misdreift. Niðurskurðurinn verður því erfiðari með hverju árinu sem líður. Mjög stífri forgangsröðun hefur verið beitt í stað flats niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahúsþjónusta hefur verið skorin niður en fjármunum beint í almenna heilsugæslu ásamt hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun. Þannig hafa verkefni verið flutt frá dýrara þjónustustigi yfir á ódýrara. Niðurskurður og áherslur í heilbrigðismálum eru í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu frá 2007. Engar grundvallarbreytingar urðu eða þurfa að verða á þeirri grunnþjónustu sem lögin gera ráð fyrir að heilbrigðisstofnanir veiti.

Mestu vonbrigðin eru að ekki hefur náðst að koma böndum á kostnað sjálfstætt starfandi lækna og lyfjakostnað. Hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, hefur beitt mjög vönduðum vinnubrögðum við niðurskurðinn og dró t.d. mjög úr niðurskurðaráformum fyrir árið 2011 eftir vandlega yfirferð. Nú fer fram umfangsmikil úttekt á heilbrigðisþjónustu um hvort þörf sé á grundvallarbreytingum til að uppfylla markmið um öryggi og jöfnuð.

Ég bind miklar vonir við að í kjölfarið verði tekið upp einhvers konar tilvísanakerfi sem yrði mikilvæg kerfisbreyting í heilbrigðisþjónustu. Þá liggur fyrir þinginu frumvarp um jöfnun lyfjakostnaðar sem mun bæta hag þeirra sem þurfa að taka mikið af dýrum lyfjum. Þótt niðurskurðurinn sé erfiður er leiðarljósið öryggi og jöfnuður. Við (Forseti hringir.) munum skoða tillögur í fjárlagafrumvarpinu í þinginu með það að leiðarljósi hér eftir sem hingað til.