140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

matvæli.

138. mál
[11:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að tala fyrir þessu máli. Sá sem hér stendur er sammála því markmiði sem ráðherrann vill ná fram með því að leggja fram þetta frumvarp og leysa úr vanda sem upp kom vegna, má segja, klúðurs annars vegar á þinginu og hins vegar kannski í ráðuneytinu er varðaði innleiðingu evrópsku matvælalöggjafarinnar og niðurfellingu reglugerða sem áður leyfðu þennan bakstur sem síðan var bannaður.

Í gær töluðu fyrir frumvarpi sá sem hér stendur og Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Eygló Harðardóttir, hv. þingmenn Framsóknarflokksins, um sambærilega hluti, þ.e. að heimila sölu á heimabakstri og heimagerðum hlutum til góðgerðarstarfsemi á einstökum atburðum sem ekki hafa samfellu í rekstri. Þar gerum við tillögu um að breyta 9. gr. laganna. Ráðherra kemur hér aftur á móti og leggur til breytingu á 2. gr. laganna. Á þessu er nokkur munur. Ég bið hæstv. ráðherra að fara yfir af hverju ráðuneytið velur þessa leið. Þegar þessi vandamál urðu skýrust og ljósust í sumar taldi sá sem hér stendur að það væri hægt að leysa það tímabundið með reglugerð sem ráðherra gæti sett. Mig langar einnig að heyra ástæður þess að ráðherra setti hana ekki og kemur hér seinni hlutann í október með þetta mál.