140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

matvæli.

138. mál
[11:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur verið mikill áhugamaður um þetta mál og við áttum samtöl í sumar og haust um það hvernig koma mætti til móts við það sem eru að okkar beggja mati alveg sýnilegir agnúar á. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að segja reglugerð í sumar, ekki hvað síst með vísan til þess að í meðförum þingsins á frumvarpinu sem hv. þingmaður vísaði til voru þrengd þau skilyrði sem ráðherra hafði til að veita undanþágur frá þessu. Þá virtist vilji Alþingis standa til þess að þetta yrði ekki leyft, að minnsta kosti mátti skilja það þannig. Svo er öll laga- og reglugerðarumgjörð sem lýtur að matvælum mjög vandmeðfarin, hvernig henni er breytt og hver verður þá ábyrgur í því.

Um það frumvarp sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins fluttu um breytingu á öðrum greinum en hér er lagt til ætla ég ekki að segja fyrir fram að ekki megi líta á aðrar greinar í þessu máli og finna viðbótarskilning. Ég treysti nefndinni til að fara í gegnum það og fagna því að hv. þingmenn hafi flutt það mál. Það hlýtur að greiða enn frekar fyrir því að það meginmarkmið náist sem ætlunin er að ná.