140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

matvæli.

138. mál
[11:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli þeirri túlkun hæstv. ráðherra sem ég hef heyrt áður að í meðförum nefndarinnar hafi nefndin vísvitandi þrengt undanþáguákvæði ráðherrans til að geta leyft nákvæmlega það sem hér um ræðir. Það kom aldrei til tals. Það getur verið að menn hafi þrengt það ómeðvitað en það var alls ekki vísvitandi gert. Ég held að það sé klárt að vilji nefndarinnar hafi ekki staðið til þess.

Varðandi b-lið 1. gr. frumvarps hæstv. ráðherra og ráðuneytis langar mig að spyrja hvort hér sé um að ræða fyrstu skref í þá átt að setja landsreglur sem gilda þá um fyrirtæki og framleiðsluvörur sem menn selja ekki á hinu Evrópska efnahagssvæði heldur fyrst og fremst í heimahéraði og hefur verið gert um áratuga- eða jafnvel árhundruðaskeið, jafnvel á Íslandi öllu en ekki til útflutnings. Er verið að feta fyrstu skref og af hverju er talið nauðsynlegt að setja það inn hér? Ég hefði talið að þar skorti verulega á og að þessar landsreglur þyrftu að vera miklu heildstæðari og taka á fleiri þáttum en hér koma fram. Því inni ég hæstv. ráðherra eftir því hvort við eigum von á slíku frumvarpi sem mundi taka á þessum landsreglum er varða matvæli til neyslu innan lands og á markað innan lands.