140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

matvæli.

138. mál
[11:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um hvort það hafi verið meðvitað eða ómeðvitað af þingnefndinni þegar hún hafði þetta mál til meðferðar á sínum tíma að breyta frumvarpinu hvað þetta varðaði. Ég treysti því að það hafi verið ómeðvitað og að þau markmið sem þetta frumvarp hefur fái góðan hljómgrunn í nefndinni.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að reglugerðir Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um hollustuhætti í matvælaiðnaði og reglugerð Evrópuþingsins um einstakar reglur um hollustuhætti er varða matvæli úr dýraríkinu gilda ekki um „beina afhendingu framleiðanda á litlu magni frumframleiðsluvara til neytanda eða smásölufyrirtækis á staðnum sem afhendir vöru beint til neytenda“ svo vitnað sé beint í þessa reglugerð. Í slíkum tilvikum þurfa ríki á EES-svæðinu að setja sér eigin reglur. Framangreindar reglugerðir ESB taka gildi fyrir landbúnaðarafurðir 1. nóvember 2011 en hafa tekið gildi fyrir öll önnur matvæli.

Varðandi það að setja einhvers konar landsreglur um þetta hefur það verið rætt og sjálfsagt er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það væri leið í þessum efnum. Ég tel að það séu lagaheimildir til að fara út í þá vinnu ef nauðsyn krefur, en ábendingar nefndarinnar í þessum efnum verða bara vel þegnar. Ég treysti því að nefndin vinni þetta bæði faglega og fljótt.