140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:18]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem er eitt af þremur forgangsmálum okkar í Hreyfingunni. Hún lýtur að leiðréttingu á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

Nú síðustu daga hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verið að kynna efnahagstillögur sínar, Framsóknarflokkurinn undir nafninu plan B og þá hafa margir sagt að plan D sé frá Sjálfstæðisflokknum og mætti kannski kalla þetta þá plan R þar sem R stendur fyrir réttlæti.

Flutningsmenn tillögunnar eru auk mín Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að höfuðstóll íbúðalána heimilanna verði leiðréttur tafarlaust með því að færa vísitölu verðtryggingar til þess sem hún var fyrir hrun hagkerfisins og stöðu höfuðstóls. Miðað verði við að raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2–3%. Lög nr. 151/2010,“ — svokölluð gengislánalög — „um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lög um umboðsmann skuldara, verði numin úr gildi og skuldabyrði heimila vegna áður gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við framangreinda leiðréttingu verðtryggðra íbúðalána. Náð verði samkomulagi við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að þeim verði breytt í skuldabréf með föstum vöxtum og dregið úr vægi verðtryggingar. Náist ekki samningar við fjármálafyrirtækin um leiðréttingar lána verði lagður 95% skattur á þá afslætti á lánasöfnum heimilanna sem fjármálafyrirtækin fengu og hafa ekki gengið til heimilanna og fjármunirnir notaðir til leiðréttingar með öðrum hætti.“

Í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins breyttust aðstæður íslenskra heimila mjög til hins verra. Mestum vanda hafa stökkbreytt lán vegna húsnæðiskaupa valdið en bæði verðtryggð og gengistryggð lán hækkuðu gífurlega frá því í janúar 2008. Síðan þá hafa ýmis úrræði verið kynnt til sögunnar en engin þeirra taka heildstætt á vandanum, og sum mundi ég reyndar segja gera vandann jafnvel enn verri. Þá komu til endurútreikningar á gengistryggðum lánum í kjölfar dóma Hæstaréttar, nr. 92/2010 og nr. 153/2010, sem kváðu upp úr um ólögmæti gengistryggðra lána. Vextir Seðlabanka Íslands voru reiknaðir í stað fyrri vaxta og gengistryggingar og hafa þeir útreikningar í mörgum tilfellum verið mjög óhagstæðir fyrir skuldsett heimili, einkum ef lánin voru tekin á árunum 2004–2006 en vextir Seðlabanka voru þá mjög háir.

Orsök vandans er að finna í hruni á gengi krónunnar, verðbólgu og háum vöxtum en auk þess glíma mörg heimili við atvinnuleysi og tekjuskerðingu. Samkvæmt skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er eiginfjárstaða stórs hluta íslenskra heimila neikvæð en ætla má að þær tölur séu vanáætlaðar þar sem enn er frost á fasteignamarkaði og eignaverði haldið háu með því að halda fasteignum markvisst frá markaði. Í mestum vanda er fólk sem keypt hefur þak yfir höfuðið á síðustu tíu árum, ýmist fyrstu íbúð eða verið að stækka við sig. Ljóst er að fjölmörg heimili munu ekki geta staðið undir þeim byrðum sem á þau hafa verið lagðar og ljóst að til almennra aðgerða verður að grípa.

Hér er lagt til að lög nr. 151/2010 falli brott. Umrædd breytingalög voru samþykkt í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 sem lýstu gengistryggingarákvæði í tilgreindum bílalánasamningum ógild. Eftir seinni dóminn, þar sem tekið var á því álitaefni hvernig haga ætti uppgjöri milli aðila að slíkum lánssamningi, taldi stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að tilefni væri til að samþykkja lög sem kváðu á um að endurútreikningi bílalána og fasteignalána einstaklinga yrði hraðað til samræmis við niðurstöðu Hæstaréttar.

Eins og sagt er frá í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar (þskj. 630 á 139. löggjafarþingi) var við þinglega meðferð málsins lýst efasemdum um hvort efni breytingalaganna samræmdist umræddum dómsniðurstöðum hvað varðar þær lánategundir sem þeim var ætlað að taka til og þeirra aðferða við endurútreikning sem þar eru lagðar til grundvallar. Auk þess töldu margir þörf á að fá úr því skorið fyrir þar til bærum dómstóli hvort niðurstöður Hæstaréttar samræmdust neytendalöggjöfinni og alþjóðlegum skuldbindingum sem leiða mætti af evrópskum neytendarétti, eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindaákvæðum.

Umboðsmaður skuldara er meðal þeirra sem vakið hefur máls á framangreindri réttaróvissu. Þá hefur Hæstiréttur ekki skorið úr um hvort hægt sé að krefjast viðbótargreiðslna aftur í tímann á grundvelli endurútreiknings eða hvort heimilt sé að bæta endurútreiknuðum viðbótarvöxtum, samanber 4. gr. laga nr. 38/2001, við höfuðstól lánanna en hvort tveggja er stundað af fjármálafyrirtækjunum.

Skemmst er frá því að segja að þessi lög hafa ekki reynst vel í reynd þótt einhverjir skuldarar hafi fengið leiðréttingu og séu sáttir við sitt. Hafa þessi lög og endurútreikningurinn komið gífurlega illa út fyrir fjölmarga og einkum þá sem eru með hærri lán en 1 milljón og þá sem tóku þau snemma í ferlinu, t.d. 2004 og 2006. Ég er með í greinargerðinni nokkur dæmi sem ég ætla ekki að fara yfir en get nefnt það að í sumum þeirra er staða lántakans verri eftir endurútreikninginn en eins og lánið var stökkbreytt. Lögin eru því augljóslega ekki að þjóna tilgangi sínum.

Með hliðsjón af þessum dæmum held ég að það sé alveg ljóst að markmiðunum með setningu laganna verði ekki náð enda liggi fyrir að sambærileg mál fái hvorki sambærilega niðurstöðu né að á þeim sé tekið á samhæfðan hátt. En það var þó yfirlýstur vilji löggjafans eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins sem varð að lögum nr. 151/2010.

Ég vil vekja athygli á því að lögð hefur verið fram kvörtun til ESA vegna þessarar lagasetningar og hefur nefnd innan Evrópuþingsins, Committee of Petitions, falið framkvæmdastjórn ESB að rannsaka málið og hvort það feli í sér brot á evrópskum neytendarétti.

Næst kem ég að almennum aðgerðum. Það hefur dregist allt of lengi, og ég held að flestir geti tekið undir það, að bregðast við þeim algjöra forsendubresti sem varð við hrunið. Aðgerðir stjórnvalda og fjármálafyrirtækja hafa verið sértækar og miðast einkum við að minnka það högg sem felst í gjaldþroti einstaklinga eða að afskrifa kröfur umfram veð með hinni svokölluðu 110%-leið. Til þess að skilja hugtakið 110%-leið þarf maður fyrst að skilja 100%-leiðina og hún heitir nú bara gjaldþrot á íslensku. Þessar leiðir taka ekki á þeim almenna vanda sem heimilin standa frammi fyrir að neinu gagni þótt þær geti ef til vill gert fleirum kleift að standa í skilum við hver mánaðamót. Eftir sem áður er allt hagkerfið í frosti, fólk fer ekki í viðhald og það getur ekkert leyft sér og sú neysluaukning verður ekki sem hagkerfið þarf á að halda núna.

Ég er líka með í greinargerðinni ótal dæmi um hvernig 110%-leiðin kemur á ósanngjarnan hátt út. Ef fólk hefur t.d. sett séreignarsparnað sinn til að greiða niður þá á það ekki rétt á 110%-leiðinni. Svo eru aðrir sem áttu kannski aldrei neitt í húsinu sínu, hefðu kannski ekkert átt að kaupa það, þeir eiga rétt á henni. Svo er það náttúrlega mjög mismunandi eftir fjármálafyrirtækjum, þ.e. hvar lánþeginn var með skuldir sínar, hvernig þetta kemur út.

Talað hefur verið um svigrúm til leiðréttinga. Í greinargerðinni geri ég grein fyrir ýmsum upplýsingum sem hafa legið hér og þar. Á síðustu dögum hafa komið fram enn aðrar tölur. Fjármálafyrirtækin hafa haldið því fram að svigrúmið sé allt uppurið en á sama tíma — ég vil benda á það — hefur sameiginlegur hagnaður fjármálafyrirtækja frá því að þau voru stofnuð og endurreist í október 2008 verið um 163 milljarðar kr. Mér finnst það slæmur brandari að segja að ekkert svigrúm sé til leiðréttinga á skuldum almennings á sama tíma og fjármálafyrirtækin hagnast um þessar gífurlegu upphæðir, það gengur bara ekki upp.

Fjármálafyrirtækin hafa verið afar treg til að láta það svigrúm, sem ég er sannfærð um að sé til staðar, ganga áfram en nú er kominn tími til þess að setja þeim hreinlega stólinn fyrir dyrnar. Við flutningsmenn leggjum til að náist ekki samkomulag við bankana um að þeir leiðrétti sjálfir skuldirnar verði lagður á sérstakur skattur sem mundi skila 95% af þeim afslætti sem ekki hefur verið nýttur til leiðréttinga á skuldum heimilanna til ríkisins sem mundi þá koma þeim á rétta staði. Ég held jafnvel að sú leið geti verið betri og ódýrari fyrir ríkið vegna þess að við erum auðvitað alltaf í vanda með Íbúðalánasjóð sem hefur ekki farið á hausinn og ríkið hefur þurft að leggja til fé.

Við leggjum einnig til í þingsályktunartillögunni að verðtrygging verði afnumin. Í núverandi kerfi verðtryggingar vantar allan hvata fyrir fjármálastofnanir að halda verðbólgunni lágri. Nauðsynlegt er að afnema verðtrygginguna með öllu nema á sérstökum ríkisskuldabréfum til langs tíma. Ef til vill hentar þó best að afnema hana í þrepum. Æskilegt væri að til að byrja með yrði sett þak á verðtrygginguna sem mundi miðast við 4% verðbótaþátt að hámarki árlega.

Mig langar aðeins í lokin að fjalla um ábyrgð lánastofnana og ríkisvaldsins því að ljóst er að ríkisvaldið og lánastofnanir höfðu haft veður af hruninu um þó nokkurt skeið áður en hrunið varð án þess að gera ráðstafanir til að takmarka tjón heimilanna vegna þess. Auk þess má ætla að hrunið sé beinlínis til komið vegna breytni eða skorts á aðgerðum stjórnmálamanna og fjármálafyrirtækja. Það er því með öllu ólíðandi að heimili og fjölskyldur landsins verði að bera byrðar hrunsins að mestu leyti og taka á sig tekjuskerðingu og skattahækkanir.

Með setningu neyðarlaganna, laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125 7. október 2008, tók ríkisvaldið að sér að tryggja allar innstæður á reikningum á Íslandi þótt einungis væri gert ráð fyrir því að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tryggði innstæður upp að 20.877 evrum. Með því tók ríkissjóður á sig tap vegna bankahrunsins. Stjórnvöld hafa því með lagasetningu bætt þeim sem áttu fé á reikningum í bönkunum innstæður sínar að fullu en þeim sem skulduðu bönkunum er hins vegar gert að greiða lán sín til baka með öllum þeim kostnaði sem á þau er fallinn. Þegar ljóst er að bankarnir hafa verulegt svigrúm til leiðréttingar lána og að jafnvel hafi verið gert ráð fyrir leiðréttingu við yfirfærslu skuldanna er óskiljanlegt að heimilin í landinu fái ekki að njóta réttlætis. Mér finnst þetta vera hreinlega rof á samfélagssáttmálanum og ég efast um að við getum byggt hérna upp heilbrigt þjóðfélag aftur án þess að taka með afgerandi, almennum hætti á þessum málum.