140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[13:00]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það hvernig hægt sé að afnema verðtrygginguna ráðlegg ég hv. þingmanni að lesa skýrslu nefndar sem stjórnarmeirihlutinn skipaði til að vinna einmitt að tillögum um afnám verðtryggingarinnar. Þar er meðal annars lagt til að sett verði þak á verðtrygginguna, tímabundið sem fyrsta þrepið í afnámi hennar, og að sett verði þak á raunvextina. Síðan verði farin sú leið sem ég lýst fyrr í máli mínu, þ.e. að allur lánastabbinn hvað varðar fasteignalán verði tekinn og þeim lánum breytt í norræn fasteignalán. Það getur að vísu haft einhver vandamál í för með sér varðandi eignarrétt kröfuhafa en ég trúi því að enn sé til eitthvað sem heitir norrænt módel á Íslandi þar sem aðilar komi sér saman um hvernig hægt er að taka á ákveðnu vandamáli. Andstaða þessa módels er ESB-módelið þar sem allt þarf að innleiða í lög í stað þess að komast að samkomulagi um hvernig hlutirnir eru gerðir.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um ótta fólks við að afnema verðtrygginguna held ég að lífeyrissjóðirnir séu mjög hræddir við afnám verðtryggingarinnar vegna þess að sjóðsöfnunarkerfi hentar ekki í óstöðugu hagkerfi eins og því íslenska nema það sé verðtrygging. Óstöðugt hagkerfi þýðir að það er mikil óvissa um arðsemi fjárfestinga lífeyrissjóðanna, en lífeyrissjóðirnir verða að hafa vissu fyrir því að þeir nái ákveðinni arðsemi á fjárfestingum sínum. Í óstöðugum hagkerfum er talið betra að hafa gegnumstreymislífeyrissjóðakerfi þannig að um leið og við afnemum verðtrygginguna þurfum við að minnka vægi sjóðmyndunarkerfisins í lífeyrissjóðakerfinu.