140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér falla afar sérkennileg orð, verð ég að segja, af hálfu hv. þingmanns. Ég hef alltaf sagt það í þessum ræðustól og líka við fjölmiðla, að ég teldi heillavænlegast að þetta verkefni væri opið fyrir samkeppni ólíkra aðila um orkuna. Hvers vegna? Vegna þess að eingöngu þannig komum við þessu verkefni upp úr þeim hjólförum sem það var komið í haustið 2009, stopphjólförunum.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að velta upp spurningum fyrir þingheim til að velta fyrir sér. Ég spyr: Hvers vegna sótti Alcoa aldrei um lóð á Húsavík eða á Bakka? Hvers vegna fór Alcoa sjálfviljugt aldrei í formlegar viðræður við Landsvirkjun um orkukaup? Ég spyr líka hvers vegna ekkert er minnst á að menn séu hættir við verkefnið á heimasíðu móðurfélags Alcoa, það er mjög sérkennilegt því fyrirtækið er skráð á markaði. Þetta gefur vísbendingar um að alvaran hafi ekki verið jafnmikil og væntingar voru gefnar um fyrir norðan. (Gripið fram í: Hvers vegna …) Þetta segi ég við þennan sal, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel að alþingismenn ættu, áður en þeir fylkja sér um einstaka fyrirtæki, að svara þessu, eða spyrja að minnsta kosti fyrirtækin þessara spurninga; það mun ég svo sannarlega gera.

Haustið 2009 komu fulltrúar fyrirtækisins í iðnaðarráðuneytið til forvera míns og greindu honum frá því að ekki yrði tekin nein ákvörðun um framkvæmdir fyrir norðan á næstu fimm árum. Það var ástæða þess að við ákváðum að opna ferlið um haustið 2009. Hver var niðurstaðan af því? Sömu staðfestingu fékk ég einnig á fundi í ráðuneyti mínu fyrr á þessu ári, að menn ætluðu ekki í þetta verkefni.

Þess vegna vil ég að menn hér inni velti þessari stöðu alvarlega fyrir sér, þegar þingmenn eru farnir að fylkja sér að baki einstaka fyrirtækjum. Við viljum öll stórfellda atvinnuuppbyggingu og það stendur, en það er ekki þannig að sá iðnaðarráðherra sem hér stendur sé í liði með einu fyrirtæki umfram önnur. Það eru nefnilega tvö fyrirtæki sem búin eru að sækja um lóð fyrir norðan. Eitt fyrirtæki er búið að fá úrskurð um að það þurfi ekki að fara í umhverfismat. Fleiri eru búnir að gefa viljayfirlýsingar og fimm fyrirtæki eru núna í virkum viðræðum við Landsvirkjun. Vissulega fækkar í þeim hópi eftir því sem lengra dregur og nær dregur niðurstöðu. Það geta ekki átta til tíu fyrirtæki verið í endalausum viðræðum við Landsvirkjun, það er eðlilegt að einhver detti út eftir að þreifingar hafa átt sér stað. Núna eigum við að fagna því að fimm fyrirtæki séu í alvarlegum viðræðum við Landsvirkjun um atvinnuuppbyggingu fyrir norðan og nýtingu jarðvarmans.

Pólitísk fingraför? Virðulegi forseti, mér er það ljúft og skylt að svara þeirri spurningu. Þau eru ekki á þessu máli. Ég skal nefna tvennt því til stuðnings. Í fyrsta lagi var Landsvirkjun ekki með þegar viljayfirlýsingin við Alcoa var framlengd sumarið 2008. Hún hafði verið með þegar skrifað var undir upphaflegu viljayfirlýsinguna, hún var ekki með sumarið 2008. Það var enginn hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon þá í fjármálaráðuneytinu, þar réðu ferðinni allt aðrir menn. Forstjóri Landsvirkjunar var þá Friðrik Sophusson. Þannig að engin stefnubreyting hefur orðið hjá Landsvirkjun síðan þá. Landsvirkjun var ekki með í framlengingunni 2008. Hugsi menn þetta örlítið þá var það vegna þess að Landsvirkjun áttaði sig á því að einokun í viðræðum, að vera með einn aðila í viðræðum um kaup á orkunni, var ekki farsæl leið. Fjármálaráðherrar annarra stjórnarflokka höfðu augljóslega líka áttað sig á því, ef kenning hv. þingmanns er sú að fjármálaráðuneytið hafi eitthvað um þetta að segja.

Hin ástæðan sem ég ætla að nefna er sú að eitt af þeim fimm fyrirtækjum sem eru í alvarlegum viðræðum við Landsvirkjun, er álfyrirtæki sem telur að það geti byggt upp með öðrum hætti á þeim hraða sem jarðvarminn fyrir norðan býður upp á.

Það skiptir öllu máli að við hér sammælumst um að ætla að nýta þessa orku í heimabyggð. Út á það gengur öll sú vinna sem ég legg á mig í þessu verkefni. Út á það gengur öll sú vinna sem Landsvirkjun leggur á sig, þ.e. að tryggja að störf verði til fyrir norðan. Við þurfum á þessum störfum að halda, Ísland allt, ekki bara norðanmenn. Við þurfum að sammælast um að fylkja okkur að baki þeim fyrirtækjum (Forseti hringir.) sem sýna raunverulegan áhuga núna, en ekki gefa þeim langt nef með því að tala hér eins og þau séu bara ekki til og hafi engan áhuga á Íslandi, eins og mér finnst (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn gera í þessum umræðum. Hættum að fylkja okkur að baki einstaka fyrirtækjum. Styðjum við þau fyrirtæki sem hér eru og ætla að byggja hér upp.