140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ákvörðun Alcoa um að hætta við að reisa álver á Bakka. Miklar væntingar hafa byggst upp á Norðurlandi um að álver risi á Bakka sem skapa mundi fjölda starfa, allt frá því að viðræður hófust árið 2005 þegar sameiginleg aðgerðaáætlun Alcoa, þáverandi ríkisstjórnar og sveitarstjórnar Norðurþings, Landsvirkjunar og Þeistareykja var samþykkt. Gert var ráð fyrir 250 þús. tonna álveri sem þyrfti um 400 megavött til að reka sig. Mat Orkustofnunar á þeim tíma var að virkja mætti allt að 600 megavött í jarðvarma á svæðinu. Það reyndist því miður ekki raunin. Þegar frekari rannsóknir hófust og eftir að jarðvísindamenn fóru að rannsaka svæðið betur, hefur komið í ljós að ekki er hægt að tryggja meiri orku á svæðinu en um 200 megavött. Það er bara hinn kaldi veruleiki. Alcoa hefur því tekið þá viðskiptalegu ákvörðun að hætta við áform sín, þar sem næga orku er ekki að fá á svæðinu. Stjórnvöld hverju sinni, hversu öflug sem þau eru, geta ekki talað orkuna upp eða niður, og enginn mannlegur máttur. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun árið 2009 ásamt sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum, að ganga til viðræðna við fleiri aðila um nýtingu jarðvarma á svæðinu. Það var góð ákvörðun vegna þess að í dag erum við þar stödd, ekki á byrjunarreit, þar sem verið er að ræða við fleiri fyrirtæki um nýtingu orkunnar.

Það liggur fyrir að erfiðara er að gera áætlanir fram í tímann um jarðvarmaorku heldur en vatnsfallsorku. Þann veruleika hefur Landsvirkjun verið að kynna mönnum. Engin pólitík breytir því. Ákvarðanir Landsvirkjunar byggjast á viðskiptalegum forsendum sem hún vinnur eftir, en hún vinnur að sjálfsögðu eftir því lagaumhverfi sem Alþingi samþykkir hverju sinni. Ég tel að Þingeyingar þurfi ekki að örvænta og geti verið bjartsýnir, enda kom það fram á góðum (Forseti hringir.) fundi í morgun með atvinnuveganefnd með heimamönnum, að þar eru menn tilbúnir að vinna af fullum krafti með stjórnvöldum og Landsvirkjun í að nýta orkuna á svæðinu fyrir heimamenn.