140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:46]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka sérstaklega fram að ég hef ekkert á móti áli eða álverum, en ég vil ekki hafa öll eggin í sömu körfunni. Mér finnst að við eigum að nýta orkuauðlindina með eins arðbærum hætti og mögulegt er. Orkan okkar er dýrmæt og hana eigum við að selja hæstbjóðanda. Hún er ekki heldur óþrjótandi þannig að við þurfum að vanda okkur. Með hækkandi orkuverði í heiminum eru fólgin stórkostleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að koma undir okkur fótunum aftur og byggja velferðarkerfið á traustum grunni. Við verðum að hætta að gefa frá okkur orkuna okkar eða selja hana á lágu verði til gamalla kúnna.

Ég hef verið mjög hrifin af þeirri stefnubreytingu sem ég hef séð hjá Landsvirkjun og fagna henni sérstaklega. Ég er ekki þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn, hvort heldur eru þingmenn eða ráðherrar, eigi að skipta sér af samningum Landsvirkjunar og einstaka fyrirtækja með beinum hætti. Það er í besta falli ósmekklegur pilsfaldakapítalismi.

Það er stjórnmálamannanna að marka stefnuna. Það er að mínu mati einna mikilvægast að hún sé sú að hámarka arðsemina af orkusölunni, bæði fyrir samfélagið þar sem fyrirhuguð fyrirtæki eiga að starfa og fyrir landið í heild, sem og að hún byggist á sjálfbærri þróun. Það er spurning sem gaman er að velta fyrir sér hvort þau áform sem þarna voru fyrirhuguð og virðist ekki ætla að verða úr hafi byggst á þessum lögmálum.