140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[14:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Draumsýn, það er merkilegt í þessu samhengi að tala um að hún sé af minni hálfu. Ég fór yfir málið áðan. Er það draumsýn þegar tvö fyrirtæki eru búin að sækja um lóðir fyrir norðan? Er það draumsýn þegar að minnsta kosti eitt fyrirtæki er búið að fá úrskurð um hvort það eigi að fara í gegnum umhverfismat eða ekki ef það ætlar að byggja upp fyrir norðan? Er það draumsýn þegar það er staðfest af Landsvirkjun að fimm aðilar séu í virkum viðræðum um kaup á orkunni og séu lengra komin en Alcoa fór nokkurn tímann á þeim sex árum sem það var hér í viðræðum?

Virðulegi forseti. Þetta er engin draumsýn. Ég tíni hér fram staðreyndir og legg þær á borðið.

Hv. þingmaður á líka að fara gætilega í að saka aðra þingmenn um að tala erlenda fjárfesta úr landi. Hvaða skilaboð sendir Sjálfstæðisflokkurinn í þessari umræðu þeim fyrirtækjum sem þarna eru í virkum viðræðum við Landsvirkjun um að fara í uppbyggingu fyrir norðan? Hvaða skilaboð eru það? Að þau séu ekki pappírsins virði af því að þau heita ekki Alcoa? (JónG: Það hefur enginn sagt …) Það eru skilaboðin hérna. (JónG: Þetta er ómerkilegur málflutningur.)

Virðulegi forseti. Menn þurfa að gæta sín í málflutningi hér. (Gripið fram í: Rétt.) Frá upphafi, þegar þetta verkefni byrjaði árið 2006, stóð ég með Húsvíkingum þegar sú viljayfirlýsing var gerð. Þegar við breyttum um kúrs haustið 2009 var það líka vegna þess að ég vildi áfram vinna af heilindum með Þingeyingum að atvinnuuppbyggingu fyrir norðan. Ég taldi þá stöðu sem þá var uppi ekki farsæla leið til að ná lendingu sem þýddi atvinnuuppbyggingu fyrir norðan. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að opna viljayfirlýsinguna þannig að það væri ekki beint samband frá ríki við eitt fyrirtæki heldur væri opið samband frá orkufyrirtækinu til allra þeirra aðila sem þarna vildu byggja upp. Það var af heilindum gert vegna þess að við sáum í hvað stefndi, virðulegi forseti. (HöskÞ: Þér er ekki treyst.)

Ég ætla að vinna áfram með Þingeyingum af heilindum að því (Forseti hringir.) að það verði myndarleg atvinnuuppbygging fyrir norðan. Ég vona svo sannarlega að það séu líka heilindi í því hjá öðrum þingmönnum hér inni, virðulegi forseti.