140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:22]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við atkvæðagreiðslu um breytingartillögu hans við lög um lífeyrissjóðina um daginn var hv. þm. Margrét Tryggvadóttir erlendis. Það sem gerðist hins vegar var að ég og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, sem styðjum þá breytingartillögu sem þingmaðurinn lagði fram heils hugar, áttuðum okkur ekki á á sínum tíma hvernig verið var að greiða atkvæði og um hvað. (Gripið fram í: Atkvæðaskýring …) Við greiddum atkvæði fyrir mistök gegn þessu frumvarpi, annað okkar og hitt sat hjá. Það voru einfaldlega mistök sem við getum vonandi leiðrétt í næsta sinn sem hv. þingmaður flytur þessa breytingartillögu því að ég styð hana heils hugar og ég mundi vilja vera á henni með honum ef mér stæði það til boða. Ég þakka honum fyrir það framlag hans hér í þinginu að reyna að koma á þessari nauðsynlegu breytingu varðandi lífeyrissjóðina.

Hvað varðar verðtryggðan lífeyri er hann ekki verðtryggðari en svo að fullt af lífeyrissjóðum er búið að færa niður lífeyrisgreiðslur vegna þess að þeir geta ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir reiknuðu með að gera. Þannig að það að lífeyrisgreiðslur séu verðtryggðar, þær eru það ekki nema að nafninu einu til. Lífeyrisgreiðslur eru færðar niður ef lífeyrissjóðirnir standa illa, (Gripið fram í.) sem þýðir að lífeyrisgreiðslur eru einfaldlega ekki verðtryggðar. Þetta eru bara leiktjöld sem menn nota til að reyna að blekkja fólk. Ég held að við þurfum í framhaldi af þessu að fara í gagngera endurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu. Lífeyrissjóðirnir eru hér vaðandi um allt hagkerfið eins og fíll í postulínsbúð. Það gengur hvorki né rekur með efnahagsuppbygginguna að hluta til vegna þeirra, vegna þess að þeir krefjast 3,5% raunávöxtunar sem hagkerfið stendur ekki undir og mun ekki standa undir nema einhver skammvinn bólutímabil. Þetta er kerfi sem augljóslega gengur ekki upp til langframa og vonandi kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal með okkur í þá vegferð að reyna að skoða þetta og koma einhverju skikki á þetta.