140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er ekki rétt sem kom fram í umræðunni áðan að ég væri hér bara til að vera viðstaddur mál mitt sem er næst á dagskrá, heldur hef ég töluvert mikinn áhuga á þessu. Ég hef töluvert mikinn áhuga á þeirri umræðu sem felst í því að eiginlega neyða alltaf fjármagnseigendur, þ.e. heimilin, til hagsbóta fyrir skuldara.

Hér er talað um að færa vísitölu verðtryggingar til þess sem hún var fyrir hrun hagkerfisins. Ég náði ekki að reikna út hvað þetta er mikið en ég hugsa að öll lán og greiðslur muni þá lækka um svona 30–40%. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er mikið en á því bili er það einhvers staðar. Um leið eru þá væntanlega allar eignir sem standa á móti líka skertar.

Menn tala mikið um forsendubrest. Ég hef margoft kvartað undan því að ég veit ekkert um stöðu heimilanna frekar en nokkur annar í þjóðfélaginu. Það veit enginn hvernig staðan er, menn vita ekki einu sinni hversu margir leigjendur eru. Ég hef reyndar grun um að þeir séu um 23%. Heimilin eru um 120 þúsund, 23% eru leigjendur og um 23% heimila skulda ekki í íbúðinni sem búið er í, eiga sem sagt hús en skulda ekkert í því. Nærri því helmingur heimilanna er leigjendur eða skuldar ekkert í eigninni sinni, skuldar ekki vegna íbúðarkaupa. Þetta er helmingur þjóðarinnar. Svo er hinn helmingurinn, hann skuldar vegna íbúðarkaupa en á ýmsu róli.

Það sem þessi tillaga gengur út á er að lækka skuldir allra, líka þeirra sem vel geta borgað, sem ekki hafa misst vinnuna sína, sem laun hafa ekki einu sinni verið lækkuð hjá o.s.frv. Með því að lækka verðtrygginguna á öllu er líka verið að lækka á þeim sem þurfa ekkert á því að halda. Hver á að borga? Það eru fjármagnseigendurnir og fjármagnseigendur eru alltaf heimilin. Fyrirtækin eiga ekki fjármagn, þau eiga ekki sparifé. Sveitarfélögin eiga ekki sparifé, heldur betur ekki, og ekki ríkissjóður. Það eru engir nema heimilin sem á sparifé í öllum löndum. Sparifé myndast vegna þess að einhver frestar neyslu, sparar, kaupir ekki bíl, fer ekki í ferðalag eða frestar einhvern veginn neyslu, og það myndast sparnaður og sá sparnaður er lánaður til hinna sem vilja flýta neyslu með því að kaupa sér hús þó að þeir eigi ekki fyrir því, með því að kaupa sér bíl og sitthvað fleira þó að þeir eigi ekki fyrir því.

Menn þurfa að horfa á alla myndina. Það sem ég óttast, frú forseti, er þetta og nú vil ég gjarnan að menn hlusti nákvæmlega, sparifé er núna að mestu leyti, 80%, óverðtryggt og það er með neikvæðum vöxtum. Það er verið að brenna upp spariféð núna. Það er ekkert voðalega mikið, það er eitthvað um 600 milljarðar. Lífeyrissjóðirnir eiga 2.000 milljarða. 600 milljarðar eru frjáls sparnaður heimilanna og um 80% af því fé eru óverðtryggð og sá hluti er núna að brenna upp. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann kvarta undan því, ekki einn einasta. (Gripið fram í.) Ja, ég er sennilega þessi einmana rödd sem talar um þetta hér. Til hvers leiðir (Gripið fram í.) þetta? Við þekkjum það frá fornri tíð, frá 1950–1980 var sparifé kerfisbundið brennt upp. Til hvers leiddi það? Það var ekkert sparifé lengur til. Þess vegna var verðtryggingin tekin upp, til að bjarga því sem bjargað varð, byggja upp innlendan sparnað þannig að hægt væri að lána eitthvað.

Ef menn ætla að fara eftir þeirri stefnu að eyðileggja frjálsan sparnað, eyðileggja líka lífeyrissjóðina, þýðir það að börnin okkar fá ekkert lán. Þau fá bara ekki lán, hvorki verðtryggð né óverðtryggð, af því að það verður ekkert framboð af lánsfé nema menn ætli að fá lán erlendis frá eins og Íslendingar hafa gert í gegnum áratugi. Í áratugi hafa Íslendingar tekið lán erlendis, frá erlendum sparifjáreigendum, frá erlendum heimilum. Nú er það ekki hægt lengur. Þeir brenndu sig svo illa hérna að þeir lána ekki nema með mjög miklu álagi. Hvað þýðir það? Ef menn ekki fara að horfa á uppsprettu fjárins sem á að fara að lána verður ekkert til að lána.

Svo er annað með lífeyrissjóðina sem ekki hefur verið nefnt og ég er að spyrjast fyrir um núna. Fyrstu árin sem lífeyrissjóðakerfi starfar, sem byggja á söfnunarkerfi, er allt fullt af peningum af því að menn borga iðgjöld og sárafáir eru komnir á lífeyri. Það er allt fullt af peningum fyrstu árin. Svo vaxa alltaf lífeyrisgreiðslurnar og á einhverjum tímapunkti, sennilega 2020 eða 2030 þegar lífeyrissjóðakerfið verður orðið 50 ára gamalt, það byrjaði 1970, fara lífeyrissjóðirnir hugsanlega að taka meira út úr atvinnulífinu en þeir lána til þess. Þeir taka peninga út úr atvinnulífinu en geta ekki lánað út af því að greiðslurnar eru orðnar jafnmiklar og inngreiðslurnar. Á þeim tímapunkti verður þessi þvingaði sparnaður ekki að gefa neitt til lánveitinga, hvorki til heimila né fyrirtækja. Þetta vil ég að verði skoðað, á hvaða tímapunkti þetta gerist og hvernig við ætlum að mæta því. Hvernig ætla Íslendingar að mæta því þegar engin uppspretta fjár verður í landinu?

Svo horfir maður á svona tillögu til þingsályktunar sem er hrein árás á þær sárafáu hræður sem eru að spara, hrein árás, og árás á lífeyrissjóðina. Ef lífeyrissjóðirnir verða skertir, allar verðtryggðar eignir þeirra, um 20%, 30% þurfa þeir hugsanlega að skerða lífeyri um svona 10%. Ég veit ekki nákvæmlega hvað verðtryggðar eignir eru stór hluti eigna þeirra en þeir munu þurfa að skerða lífeyri varanlega um 10%.

Hv. þm. Þór Saari sagði áðan að lífeyrissjóðirnir verði að skerða lífeyri, af hverju skyldu þeir skerða lífeyri? Af því þeir lentu í áföllum í hruninu og þeir eiga ekki lengur fyrir útgjöldunum. Ef taka á meira af þeim með því að skerða verðtryggðar eignir þeirra eiga þeir enn síður fyrir því. Þá þarf að skerða til viðbótar. Þetta verður hrein skerðing til viðbótar hjá lífeyrisþegunum. Þetta vantar alveg í þessa umræðu. Það vantar líka algjörlega umræðuna um hina hliðina, hvar á uppspretta lánsfjár að vera á Íslandi eftir 10, 20, 30 ár? Hvar eiga börnin okkar að fá lán þegar þau ætla að kaupa sér húsnæði? Viljum við hafa það þannig að þau bara fái ekki lán? Það var einu sinni þannig á Íslandi að það var mjög erfitt að fá lán af því að það var búið að brenna allt sparifé upp, það var ekki hægt að fá nein lán. Þá voru stofnaðir sérstakir bankar til að veita fólki aðgang að láni. Bankarnir hétu Útvegsbanki, hann lánaði útveginum, Iðnaðarbanki, hann lánaði iðnaðinum, Landsbanki sem átti að lána landsmönnum, Alþýðubanki, hann lánaði alþýðunni o.s.frv. Það voru stofnaðir bankar til að komast í sparifé af því það var ekkert til til að lána á frjálsum markaði.

Vilja menn fara í þessa stöðu aftur? Vilja menn að börnin okkar fái ekki lán í framtíðinni, eftir 10, 20 ár, vegna þess að það er búið að ráðast svo mikið á þann litla frjálsa sparnað sem er til að hann er horfinn? Ég get reiknað út hvað þessi frjálsi sparnaður rýrnar mikið. Hann rýrnar um minnst 3% á ári. Ef þetta eru 500 milljarðar sem eru óverðtryggðir rýrnar hann um 15 milljarða á ári. Hann skreppur saman af sjálfu sér og svo var hann skattaður að sjálfsögðu.

Ég vara við svona hugmyndum, ég vara við þeim, að ráðast á sparifjáreigendur aftur og aftur eða það sem menn kalla gjarnan fjármagnseigendur. Það er eitthvað ljótt fólk, ljótur þjóðflokkur. En það vill svo til að það eru heimilin, akkúrat þau heimili sem ekki hafa eytt, ekki hafa keypt sér stóran bíl, ekki hafa keypt sér stóra íbúð, ekki hafa farið í ferðalög og hafa frestað neyslu og lagt fyrir. Mér finnst ljótt að ráðast á það fólk.