140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í hruninu töpuðu fjármagnseigendur mest. Fjármagnseigendur, þ.e. sparifjáreigendur og heimili. Lífeyrissjóðirnir sem eru með sparifé allra landsmanna, ég fullyrði allra heimila, allir eru skyldaðir til að borga þangað inn, töpuðu óhemju, líka væntanlega þessi sjóður sem er séreign. Hann tapaði á öðrum viðskiptum, erlendum eða innan lands, þannig að þó að hann hafi átt þetta lán hjá þessari konu tapaði hann á móti. Þannig gerðist það. Auðvitað er það mjög slæmt. Það er líka slæmt þegar 60 þúsund heimili töpuðu hlutabréfum um 80 milljarða samtals. Það er líka mjög slæmt af því að sumt þetta fólk var jafnvel platað til að kaupa hlutabréf, það var platað til að kaupa hlutabréf og það varð forsendubrestur hjá því fólki. Það hefur enginn talað um að laga það neitt. Menn hafa því verið að tapa mjög víða. Lífeyrissjóðirnir töpuðu óhemju peningum. Það kemur ekki fram í bókunum þeirra. Af hverju ekki? Vegna þess að erlendu eignirnar sem voru 40% tvöfölduðust í verði út af gengishruni krónunnar og lífeyrissjóðirnir eru mældir í krónum. Þannig að höggið sem þeir fengu varð í bókunum miklu minna vegna þess að erlendu eignirnar hækkuðu, tvöfölduðust, en innlendu eignirnar hafa þá hrunið þeim mun meir. Þannig að staða lífeyrissjóðanna eða höggið sem þeir fengu í þessu hruni var miklu meira en menn hafa verið að sýna af því þeir eru mældir í krónum.

Innlendir sparifjáreigendur sem áttu innlendar eignir — ef þær eru mældar í evrum — hafa þær eignir hrunið um helming alveg eins og innlendar skuldir mældar í evrum hafa líka hrunið. Ekki kannski eins mikið, sérstaklega ekki þær verðtryggðu, en þær hafa hrunið sennilega um 20–30% mældar í evrum.