140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:45]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Frú forseti. Mig langar bara örstutt í lokin að þakka fyrir umræðuna sem hefur verið góð að mínu mati. Hér hafa tekið þátt þingmenn úr öllum flokkum nema Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, auk eins þingmanns utan flokka.

Mig langar aðeins að fjalla meira um óréttlæti hinna svokölluðu skuldaúrræða sem ríkisstjórnin hefur sett fram og stjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt, af því það er svo tilviljanakennt hvort þau eru leiðrétting eða högg. Af þeim dæmum sem maður skoðar finnst mér oft á tíðum vera þannig að fólk sem hefur kannski minni tekjur en meiri og hefur nurlað og sparað og er gott og grandvart, heiðvirt fólk, fær enga aðstoð. Það átti kannski orðið 50% í íbúð sinni eða jafnvel meira en sá eignarhluti er algjörlega brunninn upp og engar leiðréttingar eða hjálp að fá. Í raun er bara sagt að það geti borgað, og það getur kannski borgað en það getur kannski ekki gert neitt annað, getur ekki farið með börnin til tannlæknis eða veitt sér nokkurn skapaðan hlut.

Mig langar líka aðeins að tala um þessar sérstöku vaxtabætur sem bætast við aðrar vaxtabætur og eiga að vera sérstök leiðréttingaraðgerð á vegum ríkisstjórnarinnar. Mér skilst að alls sé ríkið að borga 18 milljarða kr. á þessu ári í sérstakar vaxtabætur og aðrar vaxtabætur. Í raun og veru er þetta óbein ríkisaðstoð til bankanna sem geta þá hvort tveggja, haldið vöxtunum háum og haldið í verðtrygginguna. Ríkið kemur til móts við þá sem skulda með vaxtabótum. Mér finnst að við þurfum að skoða þetta og velti fyrir mér hvort þetta sé eitthvað sem við viljum gera.

Mig langar líka að tæpa á þeim skilaboðum sem við sendum til samfélagsins með þessu öllu saman. Við höfum ótal dæmi um fólk sem fór óvarlega — við skulum ekki gleyma því að sumir sem skulda eyddu um efni fram. Fullt af fólki á Íslandi, kannski sérstaklega á árunum eftir 2000 þegar aðgangur að ódýru lánsfé var mjög mikill, fór margt mjög geyst. Mér finnst sárt að sjá að það fólk sem fór hvað óvarlegast er kannski að njóta þeirra úrræða sem þó eru til, en fólk sem fór ekki geyst, keypti sér ekki flatskjá sem er nú oft talið merki um mikla óráðsíu, hvað sem okkur finnst um það, kannski má leggjast í leit að einhvers konar öðruvísi sjónvarpstækjum, ég veit ekki hvort hún mundi bera árangur — það fær enga hjálp. Þetta finnst mér svo ósanngjarnt.

Þess vegna finnst mér að þær leiðréttingar sem farið er í verði að deilast jafnt á alla, svo að þeir sem fóru óvarlega, reistu sér hurðarás um öxl, þurfi líka að taka afleiðingum gerða sinna. Þess vegna finnst mér miklu sanngjarnara að reyna að leiðrétta forsendubrestinn en að fara í sértækar aðgerðir sem bjarga bara sumum og fullkomlega tilviljanakennt hverjum.