140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[14:59]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt nú lengi vel að þetta yrði meðsvar en ekki andsvar, en svo kom í ljós að svo var ekki. Ég vil svara þessu.

Stjórnarskráin er undirstaða allrar lagasetningar. Stjórnarskráin á að vera lítið breytanleg. Menn mega ekki breyta stjórnarskránni alla daga vegna þess að öll lagasetningin hvílir á stjórnarskránni. Ef í henni er breytt einu orði þarf að breyta allri túlkun allra laga eftir það, jafnvel að breyta lögum. Ég vil því ekki gera mjög örar breytingar á stjórnarskránni. Ég vil hafa mjög seigfljótandi breytingar og um þær þarf helst að vera mikil samstaða. En auðvitað geta menn rætt þetta. Menn geta rætt þetta í hörgul í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta til umfjöllunar, fengið umsagnir og rök með því að hafa svona háa þröskulda eða hvort það sé ástæðulaust.

Ég held að áhugaleysi um stjórnmál, áhugaleysi um umhverfi sitt sé kannski einmitt það sem hv. þingmaður óttast. Ég vil ekki hafa það þannig, að fólk sitji heima vegna áhugaleysis þegar verið er að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Mér finnst að stjórnarskráin skipti okkur svo miklu máli að menn eiga að sýna því áhuga. Ef þeir sýna því ekki áhuga verði stjórnarskránni hreinlega ekki breytt. Þetta er mitt sjónarmið, ég vil í fyrsta lagi hafa breytingarnar hægfara og í öðru lagi að menn sýni þessu áhuga, þeir eiga að hafa áhuga á stjórnarskránni.