140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp fyrst og fremst til að lýsa því yfir að frá mínum bæjardyrum séð er hér um að ræða mjög áhugavert frumvarp frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og fleirum. Í umræðum um tillögur stjórnlagaráðs og aðrar hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar hefur mjög verið rætt um nauðsyn og mikilvægi þess að leita eftir afstöðu þjóðarinnar eins og það er kallað, kjósenda almennt, til stjórnarskrárbreytinga. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að núverandi stjórnarskrá gerir ekki ráð fyrir að sú leið sé farin. Því er ljóst að ef reynt verður að fara í einhvers konar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs eða eitthvert annað plagg sem kemur frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd einhvern tímann á næsta ári eða þarnæsta, erum við að tala um atburðarás sem felur í sér frávik frá gildandi reglum stjórnarskrárinnar. Segja má að frumvarp hv. þm. Péturs H. Blöndals leysi það mál vegna þess að hér er gert ráð fyrir að þeirri reglu stjórnarskrárinnar sem kveður á um aðferðina við breytingar sé breytt áður en farið er í efnislegar breytingar á öllum hinum greinunum. Fyrst verði tekið það skref að kalla þjóðina að borðinu ef svo má segja með hátíðlegu orðalagi, það sé ákveðið fyrst, í kjölfarið sé komið með hinar efnislegu breytingar og þær síðan bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna eftir nýjum reglum.

Í raun og veru finnst mér sú tillaga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal mælir hér fyrir vera miklu rökréttari en hugmyndir sem hafa verið á sveimi um að farið sé í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í sambandi við úrvinnslu á tillögum stjórnlagaráðs eða aðrar tillögur um stjórnarskrárbreytingar sem nú eru til umræðu.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki þessa tillögu inn í umfjöllun sína sem nú er að hefjast um stjórnarskrárbreytingar. Varðandi innihaldið í tillögunni þá get ég fallist á það að flestu leyti. Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að rétt sé að gera ákveðin skilyrði varðandi þátttöku og stuðning. Ég er kannski ekki tilbúinn til að gera jafnstífar kröfu og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerir, því að þær kröfur sem hann gerir ráð fyrir eru vissulega nokkuð stífar um bæði aukinn meiri hluta á þingi og síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég tel að það sé kannski útfærsluatriði og veiti því athygli að hv. þingmaður segir sjálfur að það séu atriði sem kunna að verða skoðuð nánar. Ég get vel fallist á sjónarmið um að það séu einhver þátttökuskilyrði og jafnvel eftir atvikum krafa um aukinn meiri hluta, en ég held hins vegar að það sé kannski fulllangt gengið í tillögunni miðað við þá meginreglu að á endanum hljóti meiri hlutinn að ráða.

Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar svokölluð stjórnarskrárnefnd, sem skipuð var af forsætisráðherra og starfaði á árunum 2005–2007, skilaði af sér þá skilaði hún af sér annars vegar áfangaskýrslu með umfjöllun um margvísleg efnisatriði stjórnarskrárinnar, en hins vegar skilaði hún líka frá sér tillögu, einni tillögu. Það var tillaga sem gekk einmitt út á breytingar á 79. gr. Tillagan barst þinginu en varð aldrei að þingmáli þó að búið væri að skrifa það upp í frumvarpsformi en kynna má sér þá tillögu í gögnum sem liggja fyrir um störf nefndarinnar frá febrúar 2007. Þar var einmitt gert ráð fyrir að áður en farið væri í efnislegar breytingar á einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar yrði 79. gr. breytt þannig að allur hinn efnislegi pakki yrði þá bara afgreiddur samkvæmt nýrri aðferð. Þá var reyndar um að ræða dálítið flóknari útfærslu en er að finna hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þar var um að ræða að gerð voru skilyrði sem vörðuðu líka málsmeðferð í þinginu, gert ráð fyrir að stjórnarskrárbreytingar fengju fjórar umræður í þinginu en ekki þrjár og það voru tilteknar reglur þar inni sem áttu að tryggja vandaða málsmeðferð. Hins vegar verður á það að líta að þröskuldurinn varðandi þátttöku og stuðning var miklu lægri en er að finna í frumvarpi hv. þm. Péturs H. Blöndals.

En ég vildi alla vega benda á að sú tillaga er til. Hún gengur í grundvallaratriðum í sömu átt og tillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hún var niðurstaða af ákveðinni málamiðlun á þeim tíma, árið 2007, í þeirri stjórnarskrárnefnd sem þá starfaði. Í henni áttu sæti fulltrúar allra flokka sem þá sátu á þingi, þeirra fjögurra sem nú eru stærstir á þingi, og Frjálslynda flokksins að auki. Undir þá tillögu rituðu m.a. tveir af núverandi hæstv. ráðherrum. Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon rituðu undir þá tillögu, sömuleiðis ýmsir sem enn sitja á þingi eins og sá sem hér stendur og hv. þm. Bjarni Benediktsson. Um þá niðurstöðu, sem vissulega var málamiðlun, náðist allgóð samstaða á þeim tíma þó að aðstæður leiddu til þess að ekki var meira með það gert. En eins og nú eða í tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals var gengið út frá því prinsippi að breyta fyrst aðferðinni við að breyta stjórnarskrá, leið til þess að einfalda fyrirkomulagið að því leyti að aðeins þyrfti að fjalla um þetta á einu þingi eða innan eins kjörtímabils í stað tveggja eins og nú er samkvæmt 79. gr. og um leið að gera það að skilyrði að stjórnarskrárbreyting nái meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem mér hefur heyrst á umræðunni að mjög mörgum, bæði innan og utan veggja Alþingis, sé mjög umhugað um, og telji það mjög mikilvægt að þjóðaratkvæðagreiðsla verði viðhöfð til þess að breyta stjórnarskrá.

Tillagan gengur sem sagt gengur út á þetta: Breytum fyrst aðferðinni, gerum hana lýðræðislegri, eftir því sem ég skil tillöguflytjendur, og förum svo í að breyta efnisatriðunum. Látum þá hið nýja lýðræði njóta sín við efnisbreytingarnar á stjórnarskránni. Ég tel að það sé miklu heiðarlegri, einfaldari og skynsamlegri leið en ætla að fara einhverjar krókaleiðir í sambandi við ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem enginn veit hvaða gildi eiga hafa o.s.frv. eins og töluvert hefur verið rætt hér í umræðunni.

Varðandi það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ræddu um áðan, þ.e. spurninguna um hvort og þá hvaða skilyrði á að gera fyrir þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum svo dæmi sé tekið, er alveg rétt, eins og kom fram, að um það eru skiptar skoðanir. Það er þannig og alveg rétt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði að ákveðnar útfærslur í því sambandi geta leitt til þess að það að sitja heima eða skila auðu feli í raun og veru í sér nei. Það er svona einfalda útfærslan, að jafngilt sé að sitja heima og að segja nei, þ.e. að mæta á kjörstað og segja nei. Þetta er alveg rétt og þetta þarf að hafa í huga þegar verið er að setja skilyrði af þessu tagi.

Á hinn bóginn er líka sjónarmið sem mér finnst nauðsynlegt að virða í þessu sambandi að til þess að taka ákvörðun um veigamikla hluti eins og stjórnarskrárbreytingar er ekki óeðlilegt að gera kröfu um að eitthvert tiltekið hlutfall, tiltekið lágmark, taki þátt í atkvæðagreiðslunni og eftir atvikum segi já. Það er ekki óeðlilegt þegar um er að ræða veigamiklar breytingar. Því að ef breytingarnar eru mikilvægar, ef þær eru nauðsynlegar og ef eftir þeim er kallað hlýtur að vera einhver áhugi í þjóðfélaginu á slíkri atkvæðagreiðslu. Eða það skyldi maður ætla að einhver áhugi væri þá sem mundi skila sér í kjörsókn. Er ekki svo? Mér finnst annað í raun og veru órökrétt.

Það má alveg snúa spurningunni við og segja: Ef áhuginn er lítill, ef áhugi almennings á þátttöku í kosningu er lítill, t.d. kosningu um stjórnarskrárbreytingu, er þá einhver ástæða til að breyta stjórnarskránni? Mér finnst það vera fullkomlega eðlileg spurning í þessu sambandi. Hvar mörkin eiga nákvæmlega að liggja má deila um og við því er kannski ekkert fullkomið vísindalegt svar. Sú niðurstaða hlýtur alltaf að vera niðurstaða einhverra viðræðna, málamiðlunar eða einhvers þess háttar, og ég tel eðlilegt að skoða það.

Það er líka alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að almennt séð hefur kosningaþátttaka ekki verið áhyggjuefni hér á landi. Almennt séð hefur þátttaka í almennum kosningum verið verulega góð og miklu betri en víða í löndunum í kringum okkur. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar þar sem kosningaþátttaka er með því hæsta sem þekkist, hygg ég, ef ekki sú hæsta í samanburði við nágrannalöndin.

Frá því eru auðvitað undantekningar eins og við munum t.d. frá síðasta ári með kosningar til svokallaðs stjórnlagaþings sem hver getur túlkað með sínum hætti. Staðreyndin var hins vegar sú að innan við 36% atkvæðisbærra manna tóku þátt í þeirri kosningu. Nú veit ég ekki hvernig á að túlka það, og í sjálfu sér utan við efni þessa dagskrárliðar, en það má þó velta því fyrir sér hvort fólk var einfaldlega að segja nei með því að sitja heima, lýsa yfir afstöðu með því að sitja heima, eða hvort kosningin vakti einfaldlega ekki áhuga fólks. Báðar spurningarnar eru áleitnar í þessu sambandi. En einhver skýring var á því að sú kosning kallaði ekki á meiri áhuga eða meiri kosningaþátttöku en þetta þegar kosningaþátttaka á Íslandi er almennt annars á bilinu 80–90%. Það er himinn og haf á milli. Ef borið er saman við aðrar kosningar utan hinna hefðbundnu þingkosninga og sveitarstjórnarkosninga, svo sem eins og í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave sem við erum farin að fá þó nokkra reynslu af, var kosningaþátttaka þar miklu meiri, hátt í helmingi meiri en í stjórnlagaþingskosningunni. Þannig að ekkert er nú einhlítt í þessu sambandi.

Hvað sem því líður vil ég lýsa yfir velvilja í garð þeirrar tillögu sem birtist í frumvarpi hv. þm. Péturs H. Blöndals og segja fyrir mitt leyti að mér finnst eðlilegt að tillagan og nánari útfærslur á henni verði skoðaðar vandlega í tengslum við stjórnarskrárumfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.