140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[15:18]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bæði velvilja í garð málsins og fróðlega ræðu, sérstaklega söguna. Hann ræddi um ráðgefandi kosningu og ég verð að segja og hef sagt áður, sagði það fyrir nokkrum dögum, að ráðgefandi kosning hefur ekkert gildi. Það getur verið að hún gefi ákveðið merki en um leið og búið er að samþykkja stjórnarskrárbreytingu eða nýja stjórnarskrá á Alþingi þarf að rjúfa þing og þá er kosið nýtt þing og enn verður gamla stjórnarskráin í gildi. Í henni stendur í 48. gr. að alþingismenn „eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína“ þannig að það nýja fólk sem kæmi á þing mætti ekki taka tillit til skoðanakönnunar eða kosningar eða hvað við köllum það. Það á bara að fara að sannfæringu sinni og „eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum“. Þannig er ákvæðið í dag og verður þá í gildi og þeir þingmenn sem koma nýir inn verða að meta það algjörlega í samræmi við sannfæringu sína hvort þeim finnist þessi nýja stjórnarskrá góð eða slæm. Þess vegna hefur slík kosning ekkert gildi. Hún getur verið marktæk og sýnt vilja þjóðarinnar og slíkt en hefur ekkert gildi vegna þess að nýir þingmenn sem verða kosnir til að stýra landinu næstu fjögur ár eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Þess vegna mundi ég segja það háðung við þjóðina að vera með kosningar sem hafa ekkert gildi. Svo mætti líka fara mikið ódýrari leið og fá bara Gallup til að kanna þetta.