140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er í þriðja skiptið sem ég mæli fyrir þessu máli á Alþingi. Það fjallar um að þingmenn sem verða ráðherrar geti ef þeir svo kjósa vikið af þingi og kallað inn varamenn (Gripið fram í: Nei.) og komið aftur á þing á sama kjörtímabili ef hagir breytast á þann hátt að þeir af einhverjum ástæðum, persónulegum eða öðrum, láta af ráðherraembætti.

Á síðasta þingi náðist sá áfangi að meiri hluti allsherjarnefndar afgreiddi málið úr nefnd en það komst ekki á dagskrá til 2. umr. Ég hlýt að vona að þetta gerist allt í skrefum og stökkum og að málið verði afgreitt á þessu þingi.

Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir í meginniðurstöðum í kaflanum Alþingi, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins.“

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi skýru skil verði ekki mörkuð nema með því að ráðherrar sitji eingöngu á Alþingi í krafti ráðherraembættisins. Af því leiðir að þingmenn sem tækju við ráðherraembætti létu af þingmennsku. Í mínum augum er það kristaltært að engin manneskja getur bæði gegnt störfum fyrir löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið án þess að annað starfið þvælist a.m.k. á stundum fyrir hinu. Ég held að það hljóti að vera erfitt að vera ráðherra fyrir hádegi og þingmaður eftir hádegi og skilja þar algjörlega á milli.

Það verður ekki fyrr en þessu fyrirkomulagi verður komið á að við getum talað um þrískiptingu valds sem á þó að vera grunnur þeirrar stjórnskipunar sem við búum við. Það getur vissulega tekið tíma og erfiði að leiðrétta það sem hefur verið gert vitlaust eða rangt eða öðruvísi en kannski til var ætlast án þess að menn hafi gert það af nokkrum illum vilja. Vil ég þá minnast þess að það þurfti mann á hjóli og Mannréttindadómstólinn í Strassborg til að hér yrði skilið á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar og hlutverk ríkisstjórnarinnar að framkvæma það sem henni er falið innan þess lagaramma sem Alþingi hefur sett. Hér er þessu oftast alveg öfugt farið. Ríkisstjórnin ákveður dagskrána og við þingmenn erum á harðahlaupum á eftir ráðherrum og ríkisstjórn. Stundum er það meira að segja þannig að fyrstu vikur þings eins og núna eru einu dagarnir þar sem svokölluð þingmannamál komast á dagskrá vegna þess að ríkisstjórnin hefur þá ekki skilað inn stjórnarfrumvörpum. Síðan þegar líður á veturinn komast þingmannamál ekki á dagskrá og við vinnum hér fram eftir öllum kvöldum vegna þess að það þarf að klára stjórnarfrumvörp sem hafa verið lögð fram.

Ég verð að nota tækifærið, fyrst ég fór að tala um þetta, og nefna að ég óskaði eftir því í ræðu í fyrra að ríkisstjórn sú sem ég styð mundi taka sig á í þessum efnum. Hún hefur ekki gert það enn og ég harma það og hlýt að vona að hún bæti úr því.

Ég hlýt reyndar að játa að mér finnst áhugi þingmanna á því að vasast í málefnum framkvæmdarvaldsins svolítið mikill. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það geti stafað af því hversu margir þingmenn hafa áður setið í sveitarstjórnum, sem er framkvæmdarvald í sjálfu sér. Mér finnst oft koma fram í nefndavinnu og annars staðar mikill vilji þingmanna til að vasast í málum framkvæmdarvaldsins. Þeir snúa ekki máli sínu að löggjöfinni sem er okkar meginhlutverk og auðvitað eftirlit með framkvæmdarvaldinu, en eftirlit er allt annað en að ákveða hvernig hinir ýmsu hlutir eiga að vera innan ráðuneyta til dæmis. Þetta er útúrdúr sem mér finnst engu að síður að fólk megi velta fyrir sér, þá sérstaklega því hvort þetta geti stafað af því hversu margir koma hingað úr sveitarstjórnum. Það finnst mér áhugavert umhugsunarefni.

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hljóðar 89. gr. svo, með leyfi forseta:

„Ráðherrar mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en gæta verða þeir þingskapa.

Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.“

Þetta er nákvæmlega það sem hér er lagt til að öðru leyti en því að ef þetta verður samþykkt í stjórnarskrá verður það náttúrlega skylda en ekki valkvætt. Þar sem stjórnarskráin kveður á um að þingmenn geti verið ráðherrar tel ég ekki hægt að taka það af nema með stjórnarskrárbreytingu. Hins vegar er hægt að hafa það valkvætt að þeir segi af sér þingmennsku eins og hér er lagt til.

Því er gjarnan haldið fram að völd stjórnarflokka muni aukast ef ráðherrar láti af þingstörfum vegna þess að svokallað stjórnarlið verði fjömennara. Ég er ósammála því, virðulegur forseti. Völd á Alþingi miðast af fjölda atkvæða. Atkvæðavægi breytist ekki þó að þessi breyting verði. Þá verður heldur ekki svo að stjórnarliðið hafi mun meiri mannafla í umræðum vegna þess að ef ráðherrar hætta þingmennsku munu þeir auðvitað ekki taka þátt í umræðum á Alþingi nema hvað snertir þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á.

Sumir spyrja hvers vegna þurfi þessa breytingu, þ.e. að gera þingmönnum sem taka við ráðherraembætti kleift að segja af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherraembætti en geta átt afturkvæmt á sama kjörtímabili ef breyting verður á högum þeirra. Af hverju segja þessir menn ekki einfaldlega af sér? spyrja sumir. Virðulegi forseti, ég held einfaldlega að það sé til of mikils mælst að breyting af þessu tagi náist fram með einstaklingsframtaki. Þess vegna leggjum við til að þangað til stjórnarskrá hefur verið breytt á þann veg sem stjórnlagaráð leggur til geti hver og einn sem í þeim sporum stendur valið hvað hann eða hún gerir. Ef þingmaður er kvaddur til að gegna ráðherraembætti getur viðkomandi ákveðið hvort hann eða hún kalli inn varamann til að gegna þingstörfum. Eins og við öll vitum verður stjórnarskránni ekki breytt fyrr en á nýju kjörtímabili en ef þessi tillaga verður samþykkt gerir hún það kleift að þessar áríðandi umbætur, sem ég tel að séu, geti orðið fyrr og strax á þessu kjörtímabili.