140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[15:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis í þá veru að þingmenn geti afsalað sér þingsæti ef þeir verða ráðherrar og gengið svo aftur inn þegar því er lokið. Þetta er í raun veikari útfærsla á því sem áður hefur verið lagt hér fram. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur lagt fram tillögu nokkrum sinnum, og ég hef verið með henni í því, um að skilja á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í stjórnarskránni sjálfri. Það er kannski dálítið þyngra mál eins og á að vera, eins og við ræddum hér áðan, þannig að ég get tekið undir þetta.

En mér finnst hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ekki taka nægilega vel á öðrum þætti sem eru fjölmiðlar. Þingmenn fá laun fyrir að útbreiða fagnaðarboðskap. Ég stend til dæmis hérna og held fram sjónarmiðum mínum og ég er á launum við það, ráðherrar sömuleiðis. Ef ráðherrar færu út af þingi og varamenn kæmu inn eru fleiri stjórnarliðar á launum við að útbreiða fagnaðarboðskap stjórnarmeirihlutans, og það gæti skekkt umræðuna gagnvart stjórnarandstöðunni.

Ég nefndi þetta í sambandi við aðstoðarmenn ráðherra. Ef ráðherrar fá aðstoðarmann eru fleiri á launum við að útbreiða fagnaðarerindi meiri hlutans og það getur verið dálítið hættulegt þegar stjórnmálin ganga svona mikið út á fjölmiðlun eins og er í dag. Mér finnst því að í tengslum við svona breytingu þyrftu stjórnarandstöðuþingmenn að fá aðstoðarmenn sem gætu þá verið að hjálpa þeim við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri til mótvægis við (Forseti hringir.) þá sem verða ráðherrar og kalla inn varamenn.