140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[15:34]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, og líka í ræðu minni, er þetta veikari aðferð en ef stjórnarskrárbreyting verður. En það er einmitt vegna þess að stjórnarskráin segir til um þetta, þess vegna getur þetta ekki orðið fyrr en í fyrsta lagi á næsta kjörtímabili og þess vegna hefur okkur sem stöndum að þessari tillögu þótt rétt að leggja til að þetta fyrirkomulag komist á fyrr.

Út af fyrir sig má segja að það verði fleiri til að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum og breiða út fagnaðarboðskapinn, ég þarf að velta þessu aðeins fyrir mér. Ég vil gera kröfu til þeirra sem starfa á fjölmiðlum og koma fréttum héðan úr þingsal að þeir geri það ekki bara eftir fjölda þeirra sem tala heldur reyni að skýra vel og rétt frá því sem hér kemur fram. Ég skal svo sem alveg viðurkenna að ég er ekkert mjög upprifin yfir því öllu saman.

Ég er líka á því að bæta megi aðstöðu þingmanna og ég er viss um að bæta megi aðstöðu stjórnarandstöðunnar, en ég tel að það sé ekki endilega hluti af þessu máli heldur annað mál.