140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[15:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og þegar hefur komið fram kemur þetta þingmál inn nú í annað sinn, ef ég man rétt, eða í þriðja sinn, frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og fleirum. Málið hefur áður verið á dagskrá þingsins eins og vísað var til, meðal annars frumvörp sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti fyrir nokkrum árum og Kristinn H. Gunnarsson, þáverandi þingmaður, tók líka upp á einhverjum þingum, ef ég man rétt, þannig að viðfangsefnið er þekkt.

Þau eldri frumvörp miðuðust reyndar við stjórnarskrárbreytingu eins og vikið var að hér áðan. Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar að eðlilegra væri að ákvörðun um þetta atriði, þ.e. þingsetu ráðherra, væri tekin í samhengi við stjórnarskrárbreytingar frekar en það væri gert með einfaldri þingskapabreytingu þó að ég ætli alls ekki að halda því fram að sú aðferð sem hér er lögð upp sé ótæk eða óheimil. Ég held hins vegar að betur færi á því að breyting sem er allmikil frá því sem verið hefur frá því að æðsta forusta framkvæmdarvaldsins í formi ráðherra fluttist inn í landið sé skoðuð í samhengi við stjórnarskrárbreytingu frekar en breytingu á þingsköpum.

Varðandi innihald tillögunnar er ég þeirrar skoðunar að það sé nokkuð ýkt í umræðunni hversu mikil breyting hér væri á ferð. Ég held að hér væri kannski fyrst og fremst um að ræða einhvers konar táknræna athöfn frekar en að þetta þyrfti endilega að hafa í för með sér mikla efnisbreytingu. Í þingræðisfyrirkomulagi þar sem ríkisstjórn og ráðherrar sækja umboð sitt til þingsins, eða eftir atvikum meiri hluta þingsins, verður alltaf samspil milli meiri hlutans og ráðherranna. Það hafa verið einhverjar umræður og maður hefur heyrt sjónarmið um það að það muni breyta hlutum í einhverjum grundvallaratriðum að ráðherrar hætti að greiða atkvæði hér. Ég sé það ekki sem stóra breytingu ef í stað þeirra koma þingmenn sem í flestum aðalatriðum greiða atkvæði á sama veg.

Seta ráðherra á þingflokksfundum — ég er ekkert viss um að hún muni heyra sögunni til þó að hér yrði einhver breyting á í ljósi þess að ég hygg að áfram verði samvinna milli þingflokka ríkisstjórnarflokka og ráðherra ríkisstjórnar sem sitja í þeirra umboði. Það verður áfram samvinna og samspil. Það verður væntanlega þannig áfram að hinir pólitísku leiðtogar ríkisstjórnarflokka verða ráðherrar, það verður væntanlega áfram þannig, hvort sem þeir heita formaður, varaformaður eða gegna einhverjum öðrum stöðum. Hinir pólitísku leiðtogar flokkanna yrðu áfram ráðherrar, sem þýðir eftir sem áður að hugsanlegt áhrifavald slíkra forustumanna yrði fyrir hendi gagnvart þingflokkum. Ég held því að svona breyting mundi kannski frekar fela í sér táknræna breytingu en efnisbreytingu ef við á annað borð göngum út frá því að við búum áfram við þingræðisfyrirkomulag þar sem meirihlutastjórnir eru algengari en hitt og ekki verði aðrar breytingar gerðar.

Ég vildi segja líka, bara koma því að, að það hvort ráðherrar afsala sér þingmennsku eða ekki er mismunandi í löndunum í kringum okkur. Við sjáum ágæt og góð lýðræðisríki í kringum okkur sem búa við þingræðisfyrirkomulag með hvort fyrirkomulagið sem er, þannig að ekki er hægt að segja, finnst mér, að það sé endilega ávísun á betri stjórnskipun eða meira lýðræði eða betra fyrirkomulag að önnur leiðin sé valin umfram hina. Það má auðvitað fara hringinn í kringum okkur í þeim löndum sem búa við hvað líkasta stjórnskipan og þar er hægt að finna dæmi um hvort tveggja, bæði það að ráðherrar séu úr hópi þingmanna og sitji áfram sem þingmenn þó að þeir taki við ráðherraembættum og svo hitt að þeir afsali sér þingmennsku þann tíma sem þeir gegna ráðherraembættum. Í mínum huga getur hvort tveggja gengið upp. Það getur hvort tveggja gengið upp út frá hinum almennu lýðræðis- og þingræðissjónarmiðum.

Það sem hefur valdið því að ég hef haft efasemdir um þetta er einmitt það atriði sem upp kom í samtölum hv. þingmanna Valgerðar Bjarnadóttur og Péturs H. Blöndals um hin eiginlegu valdahlutföll. Ég hef áhyggjur af því, og það hafa ýmsir aðrir þingmenn haft hér í umræðum á undanförnum árum, að þessi breyting, þ.e. að ráðherrar afsali sér þingmennsku þann tíma sem þeir gegna ráðherraembættum, ýki upp þann meiri hluta sem er fyrir hendi á hverjum tíma. Það má kannski benda á að í litlu þingi eins og okkar, eða tiltölulega litlu, skiptir þetta meira máli en á þjóðþingum þar sem þingmenn eru nokkur hundruð.

Ég sé fyrir mér að breytingin hafi þau áhrif, til dæmis við núverandi kringumstæður, að atvinnupólitíkusum í fullu starfi ríkisstjórnarmegin mundi fjölga um tíu. Í öllum hlutföllum er það töluvert mikið í okkar tiltölulega litla kerfi. Atvinnupólitíkusum sem geta beint öllum kröftum sínum að störfum í stjórnmálum mundi fjölga um tíu öðrum megin við borðið en ekki hinum megin, og það ýkir upp þann meiri hluta sem er fyrir hendi hér á þinginu, það gerir það. Ekki í atkvæðagreiðslum í þinginu, það breytist ekkert, en í öllu öðru pólitísku starfi, ekki bara í umræðum hér í þinginu heldur, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á, í fjölmiðlum, við undirbúning mála og allt mögulegt í því sambandi.

Þetta er í sjálfu sér kannski enn þá tilfinnanlegra þegar við horfum á aðstæður eins og þær voru til dæmis í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem ríkisstjórn hafði mjög stóran meiri hluta — 2/3 þáverandi þingmanna, 44 af 63, held ég það hafi verið, studdu ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks 2007–2009. Það sjá allir hvers konar aðstöðumunur það hefði verið ef stjórnarandstaðan á þeim tíma, innan við 20 manns, hefði staðið uppi með óbreyttan fjölda en stjórnarliðar í fullu starfi, þingmenn og ráðherrar, úr hinu liðinu hefðu allt í einu verið komnir upp í það að vera hálfur sjötti tugur. Það er dálítill aðstöðumunur í þessu.

Við getum ekki alveg horft fram hjá þessu, finnst mér, í sambandi við þetta mál. Við skulum bara horfast í augu við það að í okkar litla samfélagi eru tiltölulega fáir sem geta gefið sig að stjórnmálum að aðalstarfi. Sumir vilja halda því fram að þeir séu allt of margir en svona í öllu hlutfalli eru þeir tiltölulega fáir. Þeir taka afstöðu eftir flokkum og beita sér eftir flokkum en líka eftir því hvort þeir styðja þá ríkisstjórn sem situr við völd eða ekki. Ég hef raunverulegar áhyggjur af því að með breytingu af þessu tagi sé, eins og ég segi, verið að skekkja valdahlutföllin enn meira meiri hlutanum í hag, ýkja upp þann meiri hluta sem hann hefur og valda enn þá meiri aðstöðumun — því að aðstöðumunur er vissulega fyrir hendi nú þegar — en auka á og gera aðstöðumuninn meira vandamál en hann þó er í dag.

Ég ætla að lokum að vísa til þess að ég er þingmaður í stjórnarandstöðu en ég held ég geti leyft mér að fullyrða að ég hafi látið nákvæmlega sömu áhyggjur í ljós á árunum 2005 eða 2004, þegar ég studdi ríkisstjórn, var hinum megin við borðið, eins og maður segir. Ég hef ekki flett því upp hvaða þingmenn aðrir tjáðu sig með þeim hætti en vísa þó til þess að ýmsir þingmenn sem þá voru, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, lýstu áhyggjum af sama þætti í þessu sambandi.