140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég reikna ekki með að hv. þm. Mörður Árnason hafi talið það sérstaka svipu á mig að vísa til flokkssamþykktar Samfylkingarinnar, en maður hefur þó upplifað það að helstu rökin fyrir afstöðu manna hafa mótast af einhverjum slíkum samþykktum og ég skil vel að hv. þingmenn framfylgi niðurstöðum landsfundar síns að þessu leyti með því að flytja þetta frumvarp. Ég veit hins vegar ekki hvort það á að skilja orð hv. þm. Marðar Árnasonar svo að hann hafi áhyggjur af flokksfélögum sínum í þessum efnum. Það verður þá bara að koma í ljós.

Ég undirstrika það sem ég sagði áðan, við getum haft mismunandi skoðanir á því hvernig þetta kemur til með að virka í raun. Mín tilfinning er sú að þetta verði ekki til mikilla raunverulegra breytinga nema þá þeirra að valdahlutföllin skekkist eins og ég benti á, að atvinnupólitíkusunum öðrum megin fjölgar meðan staða þeirra er óbreytt hinum megin. Ég trúi og treysti hv. þm. Merði Árnasyni þegar hann segir að hann sé opinn og velviljaður gagnvart því að staða stjórnarandstöðunnar verði styrkt næst, en ég verð bara að benda á að þrátt fyrir að stigin hafi verið ákveðin skref sem kunna að efla stöðu stjórnarandstöðunnar, eins og með breytingum á þingsköpum, hefur hinn fjárhagslegi rammi sem mótar allt starf í þinginu unnið gegn öllum góðum áformum, sennilega allra flokka, um að efla stöðu stjórnarandstöðunnar á síðustu árum, þ.e. að menn hafa í (Forseti hringir.) sparnaðarskyni haldið í við sig í starfsmannahaldi í þinginu (Forseti hringir.) með þeim afleiðingum að stjórnarandstaðan hefur færri starfsmenn að leita til en áður var (Forseti hringir.) og ekki síst miðað við það sem stefnt var að hér fyrir þrem, fjórum árum.