140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:23]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski eðlilegt að ræða það hér í ljósi upptalningar hv. þingmanns áðan á því hvað eðlilegt væri og mætti hugsa sér að menn ættu að fá álagsgreiðslur fyrir að ég hef stundum talað fyrir því að bæði ræðutími og laun ættu að fara eftir sentímetrafjölda. Það er ekki víst að allir séu mér sammála um það.

Mig langar til að ræða aðeins við hv. þm. Mörð Árnason um þingfararkaup almennt. Það er kannski ekki vinsælasta umræðuefnið fyrir þingmenn en þar sem ég sit á þingi sem varaþingmaður núna og hef horft á Alþingi utan frá hef ég velt fyrir mér hvert við stefnum með þingfararkaupið. Við getum skoðað það út frá ýmsum sjónarmiðum.

Styrkir til stjórnmálaflokka hafa stórlega verið minnkaðir og allt í lagi með það. Þingmenn bera aukinn kostnað sjálfir, bæði af prófkjörsbaráttu sinni og kosningabaráttu fyrir sinn flokk. Nú eru margir þingmenn hér háskólamenntaðir og ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort við gætum lent í því í framtíðinni að fá einfaldlega ekki hæft fólk til að taka til starfa á Alþingi þar sem þingfararkaupið eins og það er í dag er þó nokkuð lægra en menn gætu fengið úti á hinum almenna markaði miðað við menntun. Það væri gaman að heyra aðeins frá hv. þingmanni hvað honum finnst um upphæð þingfararkaupsins samanborið við eitthvað sambærilegt á almennum vinnumarkaði.

Enn fremur langar mig til að forvitnast um það hvort hv. þm. Mörður Árnason hafi hugmyndir um þingfararkaup í nágrannalöndum okkar.