140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta er spurning. Það sem vakti fyrir okkur var kannski að koma í veg fyrir að kjararáð færi að hækka þingmenn upp úr öllu valdi, það væru sumsé ákveðin mörk þarna. En ég fellst alveg á það, það er alveg réttmætt viðhorf að ef þetta er sett yfir í kjararáð á annað borð sé því í sjálfsvald sett hversu mikið álagið er, ef það er álag á annað borð.

Ég vona að það leyni sér ekki á málflutningi mínum og meðflutningsmanns míns að við teljum að kjararáð eigi ekki að smyrja álagi ofan á nein laun og ef það gerir það verði að vera mjög góður rökstuðningur fyrir því og hann eigi ekki að felast í einstökum virðingar- eða valdastöðum hér á þinginu. En það er alveg rétt að þetta má gagnrýna og sjálfsagt að skoða þetta í efnahags- og viðskiptanefnd sem við þessu tekur og afgreiðir það vonandi í vetur.