140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðuna. Ég er algjörlega sammála henni um að þingmenn eiga ekki að vasast í eigin launum. Kjararáð hefur til þess heimildir að ákvarða laun þingmanna eftir launaþróun í landinu. Undanfari kjararáðs var kjaradómur sem ákvarðaði laun afar fárra starfsstétta en í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur fjölgað mjög starfsstéttum sem eru komnar undir kjararáð.

Mig langar að spyrja þingmanninn vegna þess að hún er svo einlæg í þeirri trú sinni að þingmenn eigi ekki að ákvarða laun sín sjálfir eins og gerðist nú með lagafrumvarpi með breyttum þingsköpum: Finnst þingmanninum eðlilegt að þegar kjararáð hefur úrskurðað um laun þingmanna og annarra starfsstétta samkvæmt launavísitöluþróun í landinu að þingmenn og ráðherrar komi fram trekk í trekk með lagafrumvörp sem hnekkja niðurstöðu kjararáðs til lækkunar launa sem tekur mið af því sem er að gerast á almennum vinnumarkaði? Ef þingmenn eiga ekki að ákvarða laun sín til hækkunar sjálfir eiga þeir að sjálfsögðu ekki að geta ákvarðað laun sín til lækkunar eins og hefur alla vega verið gert tvisvar sem ég man eftir. Eru það ekki frekleg afskipti þingmanna að ganga í störf kjararáðs, sem á að vera hafið yfir allan vafa varðandi launaþróun, að leggja það til að laun þingmanna einnar starfsstétta verði lækkuð? Þetta er nefnilega það sem gerist þegar ákveðnir aðilar komast í ríkisstjórn. Ég kalla þetta popúlisma.