140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég vil vekja athygli á því að við höfum lifað hér á landi á ansi fordæmalausum tímum og þegar sú ákvörðun var tekin að lækka launin og grípa fram fyrir hendurnar á kjararáði held ég að fólk hafi hreinlega ekki hugsað þá hugsun til enda. Auðvitað eigum við ekki að skipta okkur af ákvörðunum kjararáðs, hvorki til þess að hækka né lækka launin okkar. Þannig er það bara.

Ég vil ekki ganga svo langt að kalla það popúlisma því að ég held að margar ákvarðanir hafi verið teknar og þá sérstaklega í blábyrjun hrunsins sem hafi ekki alltaf verið hugsaðar til enda.