140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér hefur farið fram áhugaverð umræða um laun þingmanna. Ég hef í tvígang flutt um þetta frumvarp áður og leyst þetta á allt annan hátt, sem ég ætla að benda þingmönnum á fyrst þeir eru í vandræðagangi með þetta.

Núna höfum við falið kjaradómi, þ.e. dómsvaldinu, að ákveða laun löggjafarvaldsins, sem er heldur ekki nógu gott því að kjaradómur er hluti af dómsvaldi, hann heitir jú dómur. (Gripið fram í: Kjararáð!) Kjararáð, ókei, en hann fellir alla vega úrskurði og ég lít á hann sem dóm, hann hét reyndar dómur áður. (Gripið fram í: Rétt.)

Ég flutti sem sagt frumvarp 1998 og svo aftur 2001 um laun þingmanna og þá var hugsunin sú að fráfarandi þing ákveddi nægilega snemma laun fyrir næsta þing, þ.e. ef kosningar eru eftir tvö ár er eðlilegt að svona einu og hálfu ári áður verði ákveðin laun þingmanna fyrir næsta þing. Ef ákveðið er að þau verði mjög há verður mikil eftirspurn eftir laununum og þingmennirnir sem ákveða það gætu hugsanlega misst vinnuna af því að það yrði mikil samkeppni um að komast inn á þing. Ef þeir ákveða að þau verði mjög lág eru þeir búnir að tryggja sér vinnu en gætu kannski ekki lifað af laununum.

Varðandi þingfararkaupið er það mjög mikilvæg umræða. Það er ekki greitt fyrir reynslu, þekkingu, menntun eða dugnað á Alþingi. Það er greitt eins fyrir alla nánast nema formenn nefnda því þeir fá greitt fyrir aukavinnu sem á að vera og svo formenn þingflokka og ýmislegt breytilegt en í grunninn er ekki greitt fyrir menntun, reynslu, dugnað, aldur eða neitt slíkt, ekki eins og hjá ríkinu þar sem eru starfsaldurshækkanir.

Hvernig laun á að borga á skútunni sem er mönnuð þessu fólki? Ég tel að laun þingmanna þurfi að vera góð. Ég hef heyrt allt of oft að fólk sem ég gjarnan mundi vilja sjá á þingi hefur sagt sig ekki hafa efni á því, sumt er með svo miklar námsskuldir að það getur hreinlega ekki farið á þing. Svo er þessi fjölskylduvæna eða fjölskylduóvæna stefna, sú að fólk megi helst ekki eiga börn heima, náttúrlega mjög neikvæð. Ég held því að menn ættu að skoða þá hugsun að fráfarandi þing ákveddi laun næsta þings í tíma þannig að ef mönnum fyndist launin vera há ættu þeir endilega að bjóða sig fram. Þá fáum við meira úrval af fólki inn á Alþingi. Ég hef alltaf sagt við menn sem býsnast yfir háum launum þingmanna, sem ég er ekkert viss um að séu neitt voðalega há lengur, að þeir eigi bara að bjóða sig fram og reyna að komast á jötuna og hafa það svona svakalega gott.

Það er dálítið vandræðalegt að ákveða sín eigin laun, það gengur eiginlega ekki. En af þeim ástæðum að ég vil hafa þrískiptingu valdsins vil ég ekki að einhver annar aðili úrskurði fyrir mig. Þess vegna held ég að það sé langbest að skoða þá leið núna, það er akkúrat kominn tími til þess, að ákveða launin fyrir næsta þing, þ.e. það sem kemur til starfa eftir næstu kosningar. Rökin fyrir því að mér finnst að þingfararkaupið eigi að vera mjög hátt eða það hátt að menn hafi efni á að fara á þing er til að ekki komi bara eignamenn og ríkir menn á þing. Það getur orðið niðurstaðan ef launin eru mjög lág þannig að menn geti ekki lifað af þeim. Hverjir geta þá farið á þing? Þeir sem eru það ríkir að þeir þurfa ekki laun. Sú staða getur komið upp. Viljum við það? Ekki vil ég það.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða alla þessa þætti. Ég legg til að sú nefnd sem fær þetta frumvarp til skoðunar líti líka á eldri frumvörp frá mér og spyrji: Hvað viljum við? Hvernig viljum við hafa þingið mannað og hvernig viljum við greiða fyrir það? Hvaða aðferð höfum við til að ákvarða launin?