140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[17:01]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt með athygli á hv. þm. Pétur Blöndal en ég undrast þá sannfæringu hans að með því að hækka laun þingmanna mundi betra fólk veljast inn á þing. Ég held þvert á móti, ég tek undir þá skoðun hv. þm. Marðar Árnasonar öðru sinni, að laun þingmanna eigi ekki að vera of há og ekki of lág heldur passleg.

Ég mótmæli því að peningar dragi að sér besta fólkið. Ég mótmæli því að það hafi verið bestu synir og bestu dætur þjóðarinnar sem leiddu bankana og kölluðu hrunið yfir þjóðfélagið okkar. (Gripið fram í.) Ég mótmæli því að allt besta fólk landsins gangi fyrir peningum.

Því til sönnunar vil ég nefna að hv. þm. Pétur Blöndal hefur setið eins lengi á þingi og ég man á þessum lágu kjörum þegar maður með hæfileika hans og fjármálavit gæti setið úti í bæ og unnið sér inn morð fjár, gæti verið með ríkustu mönnum á landinu, svo mér finnst Pétur H. Blöndal sjálfur vera sönnun þess að það er ekki rétt sem hann segir, að peningar laði besta fólkið að.