140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[17:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit að ég er skrýtinn og það er kannski skýringin á þessu. Hins vegar finnst mér það dapurlegt þegar ég skora á fólk að bjóða sig fram til þings að það segist ekki hafa efni á því af því að það sé með svo miklar námsskuldir, það sé í þannig stöðu og að það vilji það ekki.

Það er annar þáttur sem mér finnst menn gleyma og það er hreinlega skítkastið, ég ætla að kalla það svo hérna, að menn fórna gífurlega miklu fyrir starfið. Að lenda í eggjakasti hérna úti, ég fékk egg í hausinn í fyrra, var ekki skemmtilegt. Ég er oft að hugsa um hvað maðurinn hugsaði sem henti egginu í hausinn á mér, hvað hann mundi gera ef ég henti eggi í hausinn á honum. (Gripið fram í.) Ég er ansi hræddur um að hann mundi kæra mig.

Það er þetta skítkast í fjölmiðlum, það er skítkast á netinu og það virðist vera að sumir telji sér það til sóma að kalla þingmenn glæpalið o.s.frv., það heyrir maður aftur og aftur. Ég segi alltaf við það fólk: Ef þú segir að einhver sé glæpamaður þá veistu um einhvern glæp og þá áttu að kæra hann, annars ertu samsekur. Það held ég að sé aðalmeinið við þetta starf, hvað menn leyfa sér að vera með neikvæða umræðu.

Ég held að það sé engu að síður þannig að ef starf er vel borgað vilji menn fara í það frekar en ella. Þegar sú staða er uppi að gott fólk, vel menntað og duglegt og með góðar hugmyndir, telur sig ekki hafa efni á að fara á þing finnst mér það miður.