140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[17:04]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek fyllilega undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þingmannsstarfið á að vera vel launað. Starfsdagurinn er mjög langur. Engan dag á árinu geta þingmenn um frjálst höfuð strokið. Þeir eru þingmenn allt árið og almenningur á mismunandi áríðandi erindi við þá og ég held að flestir þekki þá reynslu að síminn hringir á undarlegum tímum og á endanum er einhver með mjög brýnt erindi. Fyrir það á auðvitað að greiða almennileg laun. Ef fólk vill að þingið sé skipað fólki sem ekki er eingöngu að leita sér að innivinnu ætti starfið að vera þokkalega launað.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það veit enginn sem ekki hefur reynt það hvílíkt áreiti fylgir þingmennskunni. Það áreiti sem mér finnst verst, þar sem ég kem úr einkageiranum — ég hef rekið einkafyrirtæki eiginlega allt mitt líf og ekki verið neinum háður nema bara um hvort fólk hefur áhuga á að eiga viðskipti við mig — er að núna virðist eiginlega hvaða sótraftur sem er líta svo á að ég sé á hans persónulegu launaskrá, sem er mikill misskilningur. Ég er kjörinn fulltrúi fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk og ég er launaður af íslenska ríkinu en ekki af einhverjum geðstirðum einstaklingum úti í bæ. Það er áreitið sem er erfitt.