140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðu sem hefur verið ágæt, hún hefur orðið almenn eins og stundum verður og þannig gengur nú lífið. Menn hafa rætt um laun og starfsumhverfi og ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Pétur Blöndal, sem er vissulega skrýtinn en mjög vel skrýtinn, væri farinn að skamma þjóðina úr ræðustól Alþingis og kannski á þjóðin það bara skilið. En við erum hér samt í hennar nafni og eigum að hugsa um hana meira en um sjálf okkur.

Ég er annars vegar kominn til þess að segja að það sem við leggjum til, ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, er í sjálfu sér mjög einfalt: Af þeim tveimur kostum sem ég tel sæmilega í þessu, að alþingismenn taki fulla ábyrgð á launamálum sínum og starfskjörum eða setji þau öll í kjararáð, leggjum við til að þau verði öll sett í kjararáð eins og meiningin var árið 1995 þannig að við þurfum ekki að standa hér og tala meira um álög og prósentur.

Hins vegar er ég hér kominn til að leiðrétta sjálfan mig frá því áðan. Mér hefur verið bent á, bæði í salnum og úr ræðustól, að málið eigi betur heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — ég er að reyna að læra nýju nöfnin á nefndunum — en í efnahags- og viðskiptanefnd sem ég hafði beint málinu til áðan. Ég tek því þá tillögu aftur og geri það að tillögu minni að málið renni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir þessa umræðu. Ég þakka fyrir stuðning við málið sem mér virðist hafa verið yfirgnæfandi í umræðunni