140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

tekjuskattur.

41. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta mál fjallar um birtingu afskrifta. Það gengur út á það að á árunum 2012–2016 eiga allir sem telja fram til skatts að tilgreina þær skuldaeftirgjafir eða afskriftir sem þeir hafa fengið, óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki, á því formi og með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður.

Í framhaldinu, þegar álagningar- og skattskrár liggja fyrir á þessu umrædda tímabili skulu þessar skuldaeftirgjafir eða afskriftir tilgreindar, þ.e. allar upphæðir sem eru 100 milljónir eða meira. Þetta er gert í þeim tilgangi og þeirri von að með því að hafa það uppi á borðum hverjir fá þær gífurlegu afskriftir sem eru í gangi verði dregið úr þeirri miklu tortryggni og vantrausti sem ríkir í samfélaginu gagnvart því hvort raunverulega sé verið að fara á lýðræðislegan, gagnsæjan og réttan máta með það svigrúm sem bankakerfið svo sannarlega hefur.

Ég ætla ekki að fara sérstaklega í gegnum greinargerðina en það eru nokkur atriði sem ég mundi vilja bæta við þar. Ég hef fengið fyrirspurnir um það hvort hægt væri að tryggja ákveðna afturvirkni þannig að ekki væri aðeins verið að fjalla um árin 2012–2016 heldur gætum við með einhverju móti fengið upplýsingar um þær afskriftir sem þegar hafa farið fram. Þær eru ekki upp á einhverja hundraðkalla heldur er þar um að ræða hundruð milljarða sem þegar er búið að afskrifa og þó að við höfum ekki enn fengið það alveg skýrt í þeim gögnum sem hafa verið lögð fyrir þingið hversu mikið það svigrúm er stendur það vonandi til bóta. Ég mundi vilja hvetja nefndina sem mun fjalla um málið, efnahags- og viðskiptanefnd, til að skoða hvort það sé með einhverju móti hægt að birta líka upplýsingar um þær afskriftir sem hafa farið fram á fyrri tekjuárum og þá frá árinu 2008 eða raunar þegar bankarnir voru endurreistir og fóru í niðurfærslu skulda.

Ég get ekki með neinu móti séð að það ætti að vera íþyngjandi fyrir viðkomandi, þetta eru upplýsingar sem ríkisskattstjóri er þegar að miklu leyti kominn með. Síðasta tekjuár kallaði ríkisskattstjóri eftir því vegna skila á upplýsingum á árinu 2011 að fjármálastofnanir, þ.e. bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög, fjármögnunarfyrirtæki o.s.frv., sem hafa lánað einstaklingum fé veittu þessar upplýsingar. Það væri mjög áhugavert að sjá hvort þetta er eitthvað sem mögulegt væri að tryggja ákveðna afturvirkni á án þess að það væri íþyngjandi fyrir þá.

Ég hef líka fengið fyrirspurn um af hverju viðmiðið sé 100 milljónir eða meira og ég vil taka fram að ef efnahags- og skattanefnd og aðrir þingmenn telja eðlilegt að birta allt mun að ég að sjálfsögðu ekki gera neinar athugasemdir við það. Þessi upphæð varð til vegna þess að þetta var viðmiðið sem rannsóknarnefnd Alþingis var með þegar birtar voru upplýsingar um lánveitingar til þingmanna og fjölmiðlamanna. Nefndin birti sem sagt upplýsingar um þá þingmenn og fjölmiðlamenn sem skulduðu meira en 100 milljónir í bankakerfinu, svo það sé skýrt hvaðan upphæðin kemur.

Í greinargerðinni er líka sagt, og það er eitthvað sem ég fékk upplýsingar um þegar ég vann málið á sínum tíma, að það sem þetta gangi raunar út á sé að flýta birtingu upplýsinga, að þær muni smátt og smátt tínast inn í gegnum ársreikningaskrá þar sem fyrirtæki leggja fram sínar upplýsingar. Síðan hef ég fengið frekari upplýsingar um að þegar menn hafi verið að skoða ársreikninga fyrirtækja sem upplýsingar liggja fyrir um að hafi fengið afskriftir, virtist vera mjög erfitt að lesa nákvæmlega úr þeim hvaða upphæðir það eru og engar upplýsingar um frá hverjum þær afskriftir eru. Þannig að þó að fyrirtæki hafi fyrir því að skila inn ársreikningum, sem hefur stundum gengið svolítið treglega að fá þau til að gera, er ekki þar með sagt að hægt verði að lesa þetta úr þeim eins og hér er verið að leggja til.

Í framhaldinu, þó að það komi ekki beint inn á þetta, fannst mér líka mjög áhugavert að skoða hvernig t.d. Norðmenn standa að þessu. Í Noregi er þetta þannig að skattstjóri afhendir alla vega fjölmiðlum upplýsingar um álagningar- og skattskrár og fjölmiðlar eins og t.d. Verdens Gang hafa síðan lagst í töluverða vinnu við að útbúa rafræna gagnagrunna sem eru aðgengilegir á netinu. Þar er raunar hægt allan ársins hring að fletta upp upplýsingum um tekjur fólks. Þetta er að mörgu leyti mjög áhugaverð nálgun á því sem hefur kannski verið allt of viðkvæmt hér. Margir hafa gagnrýnt að það séu bara örfáir dagar sem fólk geti í raun aflað sér upplýsinga um hvað hver og einn borgar í skatta. Ég held að þetta gæti verið mjög áhugavert t.d. ef við horfum bara á það að ef slíkar upplýsingar lægju fyrir gæti fólk sem er að velta fyrir sér hvað sambærilegir starfsmenn eru með í laun nálgast þær hvenær sem er ársins. Ég veit að þetta mundi t.d. örugglega hjálpa mjög konum í baráttunni fyrir því að minnka launamun kynjanna. Ég held að það væri líka áhugavert að nefndin velti þessu aðeins fyrir sér þó að það falli kannski ekki beint undir það sem þetta frumvarp varðar.

Þetta er viðleitni til að koma til móts við það sem ég held að við flestöll sem sitjum á Alþingi höfum miklar áhyggjur af, þ.e. hversu mikil tortryggni og lítið traust ríkir í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að eina leiðin til að við náum að byggja okkur upp aftur sé að hafa þessar upplýsingar uppi á borðum. Ég held að það hafi verið eitt af kosningaslagorðum annars stjórnarflokksins fyrir kosningarnar 2009 að allt ætti að vera uppi á borðum. Þetta er einmitt í anda þess og vona ég innilega að við sjáum frumvarpið koma inn í þingið aftur og við getum afgreitt þetta mál fyrir næsta tekjuár.