140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál. Meðflutningsmenn að frumvarpinu eru hv. þingmenn Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir og Skúli Helgason.

Frumvarpið var lagt fram á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Lagðar eru til breytingar á löggjöf sem snertir umhverfis- og mengunarmál. Í kjölfar frétta um mikla díoxínmengun frá nokkrum sorpbrennslustöðvum á landinu, og tilefnið var á þeim tíma sorpbrennslustöðin Funi í Skutulsfirði, ákvað umhverfisnefnd Alþingis að skoða nánar þá löggjöf um umhverfismál og upplýsingaskyldu stjórnvalda sem snýr að mengunarmálum.

Breytingarnar sem við leggjum til á núgildandi löggjöf lúta allar að því að skerpa frumkvæðisskyldu og viðbragðsskyldu stjórnvalda varðandi það að veita almenningi upplýsingar vegna aðsteðjandi mengunarhættu eða umtalsverðra breytinga á umhverfi.

Þannig leggjum við til að 1. gr. laga nr. 23/2006 orðist þannig að markmiðið sé að:

a. tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd,

b. tryggja rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín,

c. stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál, og ekki síst að

d. tryggja rétt almennings til þess að fá og frumkvæðisskyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar um umhverfismál.

Þannig leggjum við líka til að orðin „sé þess óskað“ verði felld út úr 5. gr. laganna, en þar er í núgildandi lögum kveðið á um að stjórnvöld hafi skyldu til að veita upplýsingar sé þeirra óskað, og að við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein sem er mikilvæg og svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Stjórnvöldum er ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að veruleg frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra.“

Eins og ég rakti áðan ákvað umhverfisnefnd Alþingis á síðasta þingi að skoða nánar löggjöfina um umhverfismál og upplýsingaskyldu stjórnvalda sem snýr að mengunarmálum. Afrakstur þeirrar skoðunar varð greinargerð sem ég tók saman fyrir hv. umhverfisnefnd um lagarammann sem ríkir um þetta. Niðurstaðan varð sú að kveða þyrfti skýrar á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana í íslenskri löggjöf og um rétt almennings til þess að vernda lífsgæði sín og heilsu.

Þeir lagabálkar sem komu sérstaklega til skoðunar voru lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um upplýsingarétt um umhverfismál.

Við leggjum til í frumvarpinu þó nokkrar breytingar á lögunum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, eins og ég hef þegar rakið. Í lögunum kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál. Lögin voru sett til innleiðingar á Evróputilskipun um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og í þeim er áhersla á rétt almennings til að fá upplýsingar og skyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar og miðla þeim greiðlega og skipulega.

Að mati flutningsmanna er hins vegar hvorki í lögunum né tilskipuninni beinlínis kveðið á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda þar sem þau fela ekki í sér bein fyrirmæli til stjórnvalda um að veita óumbeðnar upplýsingar eða viðvaranir vegna mengunarhættu. Bent hefur verið á að tilskipun Evrópusambandsins sé ekki afdráttarlaus en flutningsmenn telja að hana megi þó skilja á þann veg að stjórnvöld hafi frumkvæðisskyldu í upplýsingagjöf þegar mengunarhætta er til staðar. En þó að sá andi svífi yfir vötnum um frumkvæðisskylduna teljum við óhjákvæmilegt að skerpa hana með beinum lagafyrirmælum.

Ég vil í þessu samhengi líka vekja athygli á því að í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er gert ráð fyrir nýju ákvæði, 35. gr. í stjórnarskrá, um upplýsingaskyldu stjórnvalda varðandi ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á, eins og segir í tillögum stjórnlagaráðs. Í því umrædda ákvæði eru stjórnvöld skylduð með beinum hætti til að upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá svo sem um umhverfismengun

Við vorum harkalega minnt á mikilvægi þessa í díoxínmálinu svokallaða, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, á síðasta ári þegar í ljós kom að opinberar stofnanir sáu lengi vel ekki ástæðu til aðgerða og að ekki þótti ástæða til að upplýsa íbúa í næsta nágrenni við stöðvarnar um þá hættu sem fyrir hendi var. Þar kom í ljós hversu brýnt það er að skerpa á viðbragðsskyldu stjórnvalda og opinberra stofnana gagnvart almenningi. Tillaga stjórnlagaráðs um nýtt stjórnarskrárákvæði í þessa veru styður því að mínu viti enn frekar við það að lagaumhverfið verði lagað að því sjónarmiði.

Við leggjum því til breytingar á þremur greinum núgildandi laga nr. 23/2006, þ.e. markmiðsákvæði, ákvæði um upplýsingarétt almennings um umhverfismál og ákvæði um almenna miðlun upplýsinga um umhverfismál. Við vonumst til að með breytingunum verði staða almennings gagnvart stjórnvöldum og skylda stjórnvalda tryggð, sem og að tryggður verði réttur fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín.

Herra forseti. Að því sögðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.